143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:06]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Þessi spurning um hvort þetta hafa áhrif á greiðslubyrðina — ég held að fólk hafi hugsað það þannig fyrir kosningar að það fengi skuldaleiðréttingu, lækkun á láninu og þyrfti þar af leiðandi að borga minna á mánuði. Ég held að það hugsi ekki í öllum þessum hugtökum. Ég hefði ekki skilið þetta frumvarp til hlítar sem óbreyttur kjósandi og skil það ekki til hlítar.

Jú, ég held að fólk hafi klárlega hugsað: Ókei, lánin verða lækkuð og þá hlýt ég að þurfa að borga eitthvað minna. Ég tel að fólk verði fyrir vonbrigðum ef sú verður ekki raunin.

En þá spyr ég hv. þingmann: Telur hún að sú verði raunin? Ég hefði haldið sjálfur að greiðslubyrðin mundi minnka eitthvað mánaðarlega, það er líka þannig sem menn hafa talað hérna í dag.

Ég fann ekki orðið jöfnuður í frumvarpinu. Ég held að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn séu ekki endilega jafnaðarflokkar. Flokkur hv. þingmanns er það. Ég fann aftur á móti jafnræði, að það skuli tryggt, en það er bara annað mál. Jafnræði þýðir að menn hafi jafnan rétt út frá því að þeir hafi orðið fyrir verðbólguskoti. Þá er það flatari aðgerð sem færist kannski meira til þeirra sem meira hafa. Jafnræði býður algjörlega upp á það.

Jöfnuður er kannski meira leiðin sem síðasta ríkisstjórn fór.