143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða og efnisríka ræðu eins og hans er vandi í umræðu um þessi mál. Ég deili með honum því viðhorfi að varhugavert sé að skapa það fordæmi að grípa með þessum hætti til útgjalda án nokkurra efnislegra skilgreininga á því hverjir eiga að fá og hverjir ekki þegar við höfum mörg dæmi úr fortíðinni um mikla tilfærslu eigna og skulda úr sögu okkar efnahagslífs.

Ég deili því líka sem hann rekur að ákveðnir þjóðfélagshópar munu bara hagnast á þessari aðgerð vegna þess að þeir hafa ekki upplifað neinn forsendubrest. Ég hef margsinnis í umræðunni nú gengið á eftir því við talsmenn málsins af hverju ekki sé hægt að afmarka forsendubrest, af hverju ekki sé hægt að binda þessar aðgerðir við þá sem sannanlega keyptu á versta tíma og hafa upplifað misvægi eigna og skulda og ekki hina. Kann hv. þingmaður skýringu á því hvers vegna það hefur ekki tekist?