143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé vegna þess að menn vildu hafa almenna flata niðurfellingu skulda, að það hafi verið draumurinn. Það eru ákveðnar kenningar um að það sé gott fyrir efnahagslífið, gott fyrir heimilin sem skulda of mikið o.s.frv. Í sjálfu sér gæti það líka verið gott ef ríkissjóður ætti fyrir því, ef ríkissjóður væri vel settur. En ríkissjóður er ekkert síður skuldsettur en heimilin þannig að verið er að taka af vissum heimilum, því að allir borga þetta, til að láta önnur heimili fá. Og þessi vissu heimili eru ekkert endilega í góðri stöðu og ég nefni þar sérstaklega leigjendur.