143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:18]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni svarið og vil kannski ganga aðeins lengra og fitja upp á þeirri spurningu hvort það sé þá ósköp einfaldlega þannig að menn kæri sig kollótta um efnahagsafleiðingarnar. Nú trúi ég því ekki upp á hv. þingmann og ég vil trúa því að menn vilji reyna að haga aðgerðum sem þessum í þá veru að þeir valdi ekki kostnaði að óþörfu eða vandræðum. En það liggur fyrir, eftir því sem sérfræðingar Seðlabankans sögðu við okkur í efnahags- og viðskiptanefnd í morgun, að aðstæður í hagkerfinu eru þannig að þessi aðgerð mun kalla á svör af hálfu Seðlabankans, í hærri vöxtum til að bregðast við aukinni verðbólgu og þrýstingi af gengi. (Gripið fram í: Hugsanlega.) — Nei, það var alveg fyrirvaralaust að það yrðu hærri vaxtaákvarðanir (Forseti hringir.) en ella út af þessu. Það var alveg gefið (Forseti hringir.) en hversu miklu hærri er ekki alveg ljóst en allt að 1%. (Forseti hringir.) Þá spyr maður: Er ekki ósanngjarnt (Forseti hringir.) að fara í þessa aðgerð með þessum hætti ef kostnaðurinn mun lenda á þjóðinni allri, líka þeim sem ekki njóta?