143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram á dögunum frumvarp um opinber fjármál. Þar er lögð áhersla á samhæfingu fjármálastefnu ríkis og sveitarfélaga. Talað er um að búa þurfi þannig um hnútana að bæði ríkisfjármálin og peningamálin séu samstillt og réttur taktur sé í hagstjórninni og beiting ríkisfjármála sé formgerð í fjármálastefnu og fjármálaáætlun til nokkurra ára með innbyggðum fjármálareglum.

Sami hæstv. ráðherra leggur það frumvarp sem við ræðum hér fram og í skýringum stendur að ljóst sé að mikil óvissa er um heildarábyrgð aðgerðanna og áhættuþættir séu fjölmargir. Ég er svolítið rugluð af því að mér finnst þetta stangast á. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé kannski þannig að þegar stjórnarliðar tala um aga í ríkisfjármálum viti þeir ekki alveg hvað þeir eru að tala um.