143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil þetta þannig að ef við hefðum verið búin að samþykkja frumvarpið um opinber fjármál hefðum við ekki getað lagt það frumvarp sem við ræðum hér fram í þeim búningi sem það er. Við hefðum þá þurft að vera með nánari greiningar. Ég hef til dæmis spurt að því af hverju það hafi ekki verið greint hvaða áhrif það hefði ef við tækjum 80 milljarða og greiddum niður ríkisskuldirnar. Það væri almenn aðgerð og það hefur ekki verið greint hvaða áhrif það hefði á hag heimilanna og kjör í landinu ef við hefðum farið þá leið. Ég er algerlega sammála því að ég vil að við komum til móts við þá sem enn eiga í miklum greiðsluvanda eftir hrunið og ég vil að við mætum þeim. En þessi aðgerð er þannig að meðalfjárhæð á hvert heimili hækkar eftir því sem tekjur heimilisins eru hærri. Hefðu ekki þurft að vera betri greiningar að baki þessu frumvarpi?