143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Það ber að fagna því að tvö frumvörp eru komin fram á Alþingi, þ.e. til leiðréttingar á skuldum heimilanna, og jafnframt þeirri viðleitni sem er sýnd þar í að leysa fjárhagsvanda heimilanna. En við ráðstöfun á jafnmiklum fjármunum og er verið að fjalla um í frumvarpinu hér, fjármuna sem ekki verða nýttir í annað, verður að skoða þessi frumvörp vel, þær leiðir sem eru farnar í þeim. Ég treysti á að þau verði skoðuð vel og lagfærð í meðförum Alþingis.

Ég á bágt með að sætta mig við að stórir hópar fái enga leiðréttingu á svokölluðum forsendubresti. Þá er ég að tala um leigjendur, lánsveðshópinn, hina tekjulægstu og þá sem höfðu ekki efni á því að eiga húsnæði en hafa orðið fyrir forsendubresti vegna almennra verðlagshækkana. Á sama tíma og það eru fjölmargir sem eignuðust hús og síðan hækkaði höfuðstóll um tugi prósenta fá aðilar sem skulda lítið leiðréttingu á svokölluðum forsendubresti. Mér finnst erfitt að sætta mig við að þetta skuli vera sú tillaga sem á að bjarga okkur út úr vandanum.

Þetta er fróðlegt að skoða í samræmi við kosningaloforðin, eins og margir hafa gert, og auðvitað er nauðsynlegt að koma með þau inn í umræðuna. Þar var talað um að einhverjir fengju leiðréttingu á forsendubresti en svo undarlega vill til að hann er ekki einu sinni skilgreindur hér, ekki lengur, en ég kem betur að því síðar.

Ég held að við getum verið sammála um að það hafi verið orðið brýnt að leiðrétta skuldastöðu heimila, sérstaklega ef við skoðum það sem kom fram í umræðunni, en engin ljós kviknuðu þegar menn voru að tala um það í þinginu að skuldir heimilanna væru komnar yfir 2.000 milljarða, um 6 milljónir á hvert einasta mannsbarn á Íslandi á tímabilinu fyrir hrun. Hvernig gat það gerst að menn skuldsettu sig svo mikið? Þá er ég ekki að tala um íbúðaskuldir eingöngu heldur allar skuldir sem sneru að einstaklingum í þessu samfélagi. Þetta var langt umfram landsframleiðslu.

Það hlýtur að vera ein af stóru spurningunum sem Alþingi á að glíma við, hvernig hindrum við að þetta gerist aftur? Hvernig hindrum við að slík skuldsetning heimila geti átt sér stað aftur? Kannski er eitt af svörunum það sem kom fram á þessum degi í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands um aðildarviðræður við ESB. Ég hvet menn til að skoða hlutina í samhengi.

Ég sagði þegar skýrsla starfshóps ríkisstjórnarinnar kom út í nóvember sl. að margt af því sem þar kæmi fram væri ágætlega unnið og ágætar hugmyndir um margt. En það er óhjákvæmilegt að skoða allar tillögurnar í samhengi við þau loforð sem gefin voru. Við erum að tala um einungis fjórðung af því sem menn töluðu um. Við erum að tala um leiðréttingu upp á 72 milljarða kr. í þessu frumvarpi en ekki 300 milljarða kr. Rætt hafði verið ítrekað um að forsendubresturinn væri 18–20% en í skýrslunni var talað um að niðurgreiðslan á höfuðstól skulda væri um 13%. Mér sýnist á þeirri útfærslu sem hér er komin að leiðréttingin sé í kringum 5%. Ég held að menn verði að fara yfir það þegar þeir skoða í nefndinni hverjir fá, hversu miklu verið er að ráðstafa, hversu miklu það breytir af skuldum heimilanna í heild, hversu mikið það leiðréttir greiðslubyrðina hjá einstaklingum og heimilum.

Ég hefði getað eytt töluverðum tíma í að fara frekar yfir þessi loforð en við erum búin að fara yfir þau fyrr í umræðunni. Þar var ágætlega farið yfir loforð Framsóknarflokksins og þá setningu sem hæstv. forsætisráðherra sagði í þætti, þar sem hann sat drottningarviðtal í Forystusætinu á RÚV, með leyfi forseta:

„Við ætlum að láta þá sem bjuggu til forsendubrestinn bæta fyrir forsendubrestinn sem þeir bjuggu til, þ.e. þrotabú þessara banka.“

Í þeim sama þætti var talað um 300 milljarða og hefur komið fram í andsvörum að ítrekað var í þættinum að leiðréttingin úr þrotabúunum gæti jafnvel orðið hærri og ætti öll að renna til heimilanna.

Það sem er athyglisvert, af því að ég var að ræða forsendubrestinn, er að þegar menn ræddu þetta fyrir kosningar töluðu þeir um að í þeirri einföldu útfærslu að taka öll lán, þá var talað árin 2007–2010, ætti að taka það sem var umfram efri vikmörk verðbólguforsendna Seðlabankans, þ.e. 4%, það ætti að taka og leiðrétta. Það vakti því undrun þegar skýrslan kom fram að sú tala var orðin 4,8% og án þess að hafa fengið nokkra skýringu aðra en að þarna hafi verið fundið eitthvert meðaltal á verðbólgu yfir ákveðinn tíma var í rauninni ekki hægt að sjá annað en skýringin væri sú að menn ætluðu sér ekki að leiðrétta þetta nema að hluta. Nú eru þær tölur báðar horfnar og vísað til reglugerðar sem á að setja fram þegar umsóknarfrestur er liðinn og menn sjá hversu margir sækja um, þ.e. hæstv. fjármálaráðherra hefur umboð til að skammta þetta þegar þar að kemur.

Auk þess vakti undrun mína í frumvarpinu að ólíkt því sem var í skýrslunni var nú allt í einu miðað við árin 2008–2009 en ekki árið 2007 til haustsins 2010. Þetta eru allt saman hlutir sem mér finnst þurfa að ræða í nefndinni og fá betri skýringar á.

Þegar við ræðum forsendubrestinn, sem hefur verið töluvert mikið til umræðu hér, og réttlætingu aðgerðanna, þetta með að fullnægja réttlætinu, kemur auðvitað upp umræðan um hvort þetta sé forsendubrestur, hvort þetta sé réttlætingaraðgerð, þ.e. til að auka réttlæti, hvort þetta sé almenn aðgerð. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason hefur svarað því hvort þetta sé almenn aðgerð og segir að því fari fjarri. Ég tek undir með honum. Þegar búið er að þrengja hópinn svona mikið, menn hafa búið til nýjar forsendur fyrir forsendubrestinum, stytt tímabilið, er þetta engin almenn aðgerð. Þetta er aðeins endurgreiðsla til tiltekins þröngs hóps á ákveðinni upphæð. Auðvitað mun muna um að fá 70–75 milljarða greidda inn á höfuðstól. Það er ekki hægt að gera lítið úr því, en þá eigum við eftir alla hina sem urðu fyrir forsendubresti. Þá spyrjum við: Hvað munu þeir fá í framhaldinu? Það er vitnað til vinnu í sambandi við leigufélög og samvinnufélög um hvernig á að leysa það, það er vitnað til vinnu í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu en það kostar. Það kostar að setja húsnæðisbætur. Það kostar að koma þessu í gang. Það spyr maður: Af hverju eru peningarnir ekki að hluta til notaðir í að hjálpa okkur að jafna stöðuna, sem er eitt af markmiðum núverandi ríkisstjórnar, að jafna stöðuna milli leigjenda og kaupenda á markaðnum? Ég hefði viljað fá þá umræðu líka. Er fjármagn til að fara í það eða mun aðgerðin verða til þess að ekki verði farið í þær lausnir? Sumir hafa orðað það þannig að þarna sé verið að gefa út fullt af loforðum.

Það kom ágætlega fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal í ræðunni á undan þetta 18% stökk á verðbólgu við hrunið, sem hann bar saman við eldri verðbólguskot upp úr 1980 þegar verðbólguskot voru tugir prósenta, jafnvel 80%. Bara árið 1989 var verðbólguskotið 25%, árið 1990 20%, og þetta eru tölur úr skýrslunni. Við höfum ekki leiðrétt þetta. Við höfum heldur ekki leiðrétt forsendubrestinn úti á landi þar sem menn hafa flutt heilu fyrirtækin í burtu, skilið byggðina eftir nánast án atvinnu, eignaverð hrunið um 50% eða 70%, það hefur aldrei verið leiðrétt. Það hefur engin leiðrétting átt sér stað þar. Menn hafa ekki fengið neitt til baka hvað það varðar.

Hver var forsendubrestur hjá lífeyrisþegum sem urðu að sæta skerðingum eftir hrunið vegna þess að ríkissjóður var illa settur, hafði ekki efni á að borga í samræmi við þær ákvarðanir sem áður höfðu verið teknar? Og hvað með alla kaupmáttarrýrnunina sem bitnaði á öllum heimilum? Þegar við erum að tala um leigjendur erum við að tala um fólk sem leigir hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins, sem leigir fötluðum einstaklingum og það er nánast verðtryggð leiga. Við erum að tala um félagsbústaði stúdenta þar sem er verðtryggð leiga, meira og minna, sem hækkar reglulega. Við erum að tala um Búseta og Búmenn þar sem varð verulegur brestur á forsendum þegar menn þurftu allt í einu að breyta mánaðarlegri leigu úr kannski 110 þús. í 140–160 þús. Og það er ekki eftir að hafa selt eignir sínar og losað sig út og borgað sinn hlut, og eru alls ekki í þeim aðgerðum sem hér eru.

Forsendubrestur hjá ríkissjóði, af því að menn voru að tala um að það ætti hugsanlega að borga niður skuldir þar sem menn fóru úr því að vera nánast skuldlitlir, skuldlausir, yfir í að skulda svo mikið að við borgum 90 milljarða í vaxtakostnað á hverju ári. Þetta er það sem við erum að glíma við og það sem við erum að fjalla um. Ég held að menn verði að þora að fara yfir þetta út frá þessum sjónarmiðum og líka, eins og hefur komið fram áður, skoða það í samhengi við frumvarp hæstv. fjármálaráðherra þar sem verið er að ræða ríkisfjármálin og stöðu þeirra. En loforð sem lagt var af stað með, 20% og 300 milljarða, er orðið að um 5–6% og 72 milljörðum. (FSigurj: Það voru engir 300 milljarðar.) Það var talað um það ítrekað. Ég get lesið það upp, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, ég var að lesa áðan upp úr útskrift af viðtalinu úr Forystusætinu en þar stóð að það ætti að renna til heimilanna. Hvað þýðir það? (Gripið fram í: Það var talað um að svigrúmið væri 300 milljarðar.) Svigrúmið ætti að nýta í þágu heimilanna, það væri aldrei minna en 300 milljarðar, bara svo við höfum það á hreinu. Það þýðir ekkert fyrir menn að hlaupa á sig, ég er með þennan texta út í sal, ég er ekki með hann í pontunni.

Síðan koma menn hér og segja: Það eru 80% heimila sem fá niðurgreiðslu. Síðan hvenær var heimili skilgreint þannig að það er aðeins heimili ef maður skuldar? Það eru 125 þúsund heimili, húseigendur í landinu. Það er talað um að af þeim skuldi 74 þúsund verðtryggð lán, 5 þúsund fá ekki neitt, við erum að tala um 68–69 þúsund heimili sem hugsanlega fá eitthvað. Síðan dragast frá aðgerðir fyrri ríkisstjórnar og það er búið að reikna þær, þær eru í skýrslunni, þær eru jafn háar og þessi tala. Það eru yfir 70 milljarðar sem dragast frá og við eigum eftir að sjá hvernig það kemur út. Og það munu margir verða hissa þegar þeir fá þann útreikning.

Það hefur komið ágætlega fram að þeir sem voru skuldlausir og jafnvel notuðu séreignarsparnaðinn sinn strax 2008 og borguðu niður skuldirnar fá ekkert fyrir 2009, enga leiðréttingu, af því að þeir voru búnir að greiða niður og það er enginn forsendubrestur hjá þeim og hækkun. En þeir borguðu fullan skatt af séreignarsparnaðinum þegar þeir tóku hann út. Við erum að tala um fólk sem hraktist til útlanda í leit að vinnu, leigði húsið sitt, það fær ekki neitt af því að það býr erlendis, eða ef fólk bjó ekki í húsinu o.s.frv. Það er fullt af álitamálum og spurningum sem ég bið hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar að skoða vegna þess að það skiptir auðvitað mjög miklu að þetta fái vandaða umfjöllun.

Það er líka mjög forvitnilegt að sjá tímasetningarnar í þessu frumvarpi. Umsóknartímabilið hefst 15. maí og stendur í þrjá mánuði, þá verður lagt mat á hver upphæðin á að vera, svarað verður með reglugerð og síðan kemur úrvinnsla væntanlega í nóvember eða desember á þessu ári. Mér finnst líka skipta máli að skoða af hverju allur þessi tími er tekinn í þetta.

Á sama tíma og við ræðum aðgerðir sem eiga að létta greiðslubyrði af heimilunum ræðum við að einhverra hluta vegna hefur það komið inn, og það hefur komið mörgum á óvart, að taka eigi greiðslujöfnunina fyrst út, þ.e. greiðslujöfnunarsjóðinn sem lagður er til hliðar, sem ekki eru afborganir af. Það á fyrst að borga hann upp með leiðréttingunni sem þýðir að sá hópur fær litla eða enga leiðréttingu á greiðslubyrði. Það kemur mér mjög á óvart. Á sama tíma er gefið upp í forsendum að þetta muni þýða að það létti á vaxtabótum, ríkið þurfi ekki að borga eins mikið í vaxtabætur, það muni ekki halda áfram. Síðan getur komið fleira. Ríkisstjórnin er búin að lækka barnabætur og hefur aukið álögur á einstaklinga í tengslum við fjárlögin. Hefði ekki verið betra að fresta þeim? Við ræddum til dæmis að verðbólguáhrifin bara af skólagjöldunum í háskóla hefðu skilað verulega mikilli lagfæringu fyrir ríkissjóð, ekki stór upphæð í þessu samhengi, aðeins lítið brot.

Ég er með langan lista af spurningum sem ég ætla að koma á framfæri við hv. nefnd. Ég les listann kannski upp seinna í umræðunni vegna þess að fólk hefur leitað til mín og óskað eftir að fá svör sem hafa því miður ekki fengist enn þá í umræðunni. Ég skora á stjórnarliða sem standa að þessu máli, og þar með talinn hæstv. fjármálaráðherra, (Forseti hringir.) að vera hér í umræðunni og koma með svör þannig að fólk fái að vita hver staðan er á þessum málum núna við 1. umr.