143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þessu svöruðum við fyrir kosningar, svarið er nei. Við töldum ekki nóg að gert. Við töldum að vera ætti með nákvæmari fókus á hverjir fengju aðstoð í lokaumferðinni. Það kom ágætlega fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem skilgreindi ágætlega tímann, sem er í lok ársins 2004 til upphafs árs 2009. Það er aðgerð sem hefði kostað svipaða upphæð, 40–60 milljarða, jafnvel aðeins ríflega það, en það hefði þá leyst málið hjá þeim hópi og ekki komið til þeirra sem í raunveruleikanum urðu ekki fyrir neinum forsendubresti miðað við þá skilgreiningu sem ríkisstjórnin sjálf hefur á því hugtaki, þ.e. þar sem eignamyndunin nam bara á þremur, fjórum árunum fyrir hrun á höfuðborgarsvæðinu allt upp í 40–50%. Við erum að tala um höfuðstól og við erum líka að tala um greiðslubyrði og við erum að tala um að fólk sem er jafnvel með greiðslubyrði undir 50 þús. kr. á mánuði hefur fengið þessa eignamyndun. Af hverju er verið að rétta þeim pening á sama tíma og við eigum eftir að leysa úr vanda margra annarra sem búa enn þá við afleiðingar af hruninu og við þurfum að hjálpa með einhverjum hætti hvort sem er?

Þegar talað er um kosningaloforðin — ég tók nú ekki blaðið með mér, ég skal bara afhenda ykkur það — þetta með hvaða loforð þeir efna, við getum kannski sagt ókei, Framsóknarflokkurinn er að standa við kosningaloforð sín, þ.e. um það bil 25% af þeim. Þannig er það. Við skulum svo sem ekkert vera að gagnrýna það frekar, það þarf ekki að ræða það mikið frekar. En þegar við nefndum skýrsluna í Hörpu, þá ég var að telja þau atriði sem eru öðruvísi. Hvar eru 4%? Þau urðu 4,8%, nú eru þau horfin. Hvar er tímasetningin 2007–2010. Hún er orðin 2008–2009. Þetta eru breytingar, er það ekki rétt? Ég held að menn verði að skoða þetta saman. Hlutir hafa breyst sem hefur komið manni á óvart. Mér finnst það kannski ekki vera orðið aðalatriðið. Aðalatriðið er: Hvernig gagnast þetta, hvernig förum við með peninga okkar sem ríkisvald?