143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi í raunveruleikanum svarað þessu með reglugerðina, bara svo hann njóti sannmælis, með því að segja að hann teldi eðlilegt að reglugerðin kæmi a.m.k. fyrir þingnefnd eða til þingsins áður en gengið yrði frá henni. Ég tel útilokað annað, ég styð hæstv. fjármálaráðherra í því að þetta eigi að koma til þingsins og fá umfjöllun þar þegar menn fara að úthluta einhvern tíma í september/október, þ.e. þegar reglugerðirnar verða settar þegar allt er komið fram. Við skulum vona að það gangi eftir.

Hvort einhverjir hópar hafi algerlega orðið út undan þá færði ég rök að því og það hefur komið fram í fleiri ræðum í dag, m.a. frá stjórnarliðum, að forsendubresturinn var í öllu samfélaginu. Menn tóku á sig, þegar gengishrapið varð, kaupmáttarrýrnun upp á 20–30% og menn verða að lifa af því sem þeir hafa, vinnutap varð, atvinnuleysi varð, menn misstu yfirvinnu og annað slíkt vegna hrunsins, sá forsendubrestur er algerlega óbættur. En ef við tökum í tengslum við það að allir verði að eiga þak yfir höfuðið þá eru það fyrst og fremst leigjendurnir og þeir hópar sem ég nefndi sem er mjög sláandi að sjá að sitja óbættir hjá garði. Við skulum vona að bætt verði úr því en þá verður líka að vera svigrúm til þess. Það má ekki verða þannig að menn fari að reka fjárlögin með halla vegna þess að menn hafi ráðstafað peningunum með röngum hætti. Við getum nefnt námsmenn, þ.e. þeir sem borga lánasjóðnum og skila allt að 10% í afborganir. Við erum að tala um þann hóp líka. Við erum að tala um lánsveðshópinn sem að hluta getur fengið lagfæringar en lánsveðunum er ekki létt af nema menn séu komnir að því að greiða lánið upp að fullu. Það er hópur, sem þó var komin tillaga um um einhverjar útfærslur, sem situr óbættur hjá garði miðað við þessar tillögur.