143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þá er það forsendubresturinn. Hv. þingmaður kom inn á að forsendubrestur hefði víða orðið hér í gegnum tíðina og minntist á margar sjávarbyggðir úti á landi sem hefðu staðið frammi fyrir forsendubresti varðandi eignir þar þegar fyrirtæki hafa horfið með aflaheimildir frá staðnum og skilið fólk eftir slyppt og snautt. Telur hv. þingmaður að með þeirri aðgerð núna sé verið að millifæra ákveðnar skatttekjur á fjármuni milli í raun og veru landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis? Við þekkjum gífurlegan mun á fasteignaverði milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Landsbyggðin tók ekki þátt í húsnæðisbólunni nema að mjög takmörkuðu leyti en virðist eiga núna með skatttekjum til framtíðar að greiða niður þá bólu sem fyrst og fremst varð á höfuðborgarsvæðinu og stærstu fjármunir fara væntanlega í að greiða niður á höfuðborgarsvæðinu. Er verið að millifæra þarna skatttekjur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis?