143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður ræddi hér um hvað frumvarpið er óljóst, reiknivélin er týnd, og það er ekki hægt að reikna út hvað hver fær mikið. Mér skildist á hv. þingmanni að hún teldi það vera þannig að nú sæki fólk um leiðréttingu og að í september komi síðan í ljós hve margir hafa sótt um. Mér fannst hún svo bjartsýn að halda að þá strax fengi fólk að vita hvað það fengi mikið en ég skil þetta þannig að það gæti tekið þrjá mánuði að reikna það út. Hún leiðréttir mig kannski ef svo er ekki. Minn skilningur hefur verið sá að þá yrði leiðrétt á einstaklingana en mér fannst hv. þingmaður halda að þá yrði heildarupphæðin sem ætti að fara í þetta hækkuð, ef ég orða þetta skiljanlega. Það gæti komið í ljós að mjög margir sækja um og til að við fáum um 5%, eða ég veit ekki hvað það er, verði þessi upphæð, 80 milljarðar, hugsanlega hækkuð. Ef miða á við forsendur sem reiknaðar eru út í dag sé eitthvert meðaltal upp á 1,5 millj. kr. sem hver eigi að fá og ef margir sæki um lækki sú upphæð á einstakling.

Ég skil þetta kannski ekki alveg (Forseti hringir.) en af því að ég held að við verðum báðar að kynna okkur þetta sæmilega (Forseti hringir.) gætum við reynt að finna út úr því saman hvert er verið að fara í frumvarpinu. (Forseti hringir.) Þetta er hættan við frumvarpið, það er ekki alveg ljóst hvernig þetta er, (Forseti hringir.) það er óljóst.

(Forseti (ÞorS): Forseti biður hv. þingmann að virða tímamörk.)