143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:21]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé kannski kjarni málsins, að frumvarpið er allt mjög óljóst og ómögulegt að vita til hvers það leiðir. En mig langar aðeins til að koma inn á séreignarsparnaðinn. Hv. þingmaður tók það fram sem er alveg hárrétt að séreignarsparnaðarleiðin nýtist best þeim sem háar hafa tekjurnar en síðan er ekkert hugsað um þá sem lægstar hafa tekjurnar.

Mér var bent á það í dag af samflokkssystur minni, hv. þm. Margréti Gauju Magnúsdóttur, að það er svolítið kostulegt og það gerist mjög mikið í umræðu núna hvað orð breytast. Nú eru allir að tala um séreignarsparnað en einhvern tíma hét þetta séreignalífeyrissjóðssparnaður. (Forseti hringir.) Það er einmitt búið að sleppa lífeyrissjóðsdæminu út úr þessu. (Forseti hringir.) Það er pínulítið verið að fela það og verið að færa fé frá elliárunum, efri árum til nútímans.