143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir afbragðsræðu. Hún kom inn á heildartölur í upphafi og þær hafa verið títtnefndar og tengdar loforðum. Ég vil byrja á því að halda þeim staðreyndum til haga að 240 milljarðana má hugsanlega rekja til 20% leiðar Framsóknarflokksins frá því 2009. Þá er hvergi að finna í neinum loforðum og 300 milljarðana sem svo títt eru nefndir og tengdir snjóhengjunni er hvergi að finna sem tölu heldur tengist sú upphæð stemningunni í kringum snjóhengjuna og því að við framsóknarmenn ætluðum sannarlega að mæta skuldastöðu heimilanna, þannig að því sé haldið til haga.

Hv. þingmaður kom inn á úrræði í húsnæðismálum og húsnæðissamvinnufélögin. Í slíku frumvarpi er hugmyndafræðin skýr en útfærslan getur orðið flóknari. Ég tek undir með hv. þingmanni að það þarf auðvitað ekki alltaf að finna upp hjólið en ég mundi vilja spyrja hv. þingmann um þennan hugmyndafræðilega ágreining. Hann hefur mestmegnis komið fram. Mér fannst þetta afbragðsræða og góðir punktar sem hún kom með. Vissulega þurfum við alltaf að gera betur í málefnum elli-, örorku- og lífeyrisþega en ég vil jafnframt benda á að þingsályktunartillaga sem kom fram á sumarþingi var í tíu liðum og (Forseti hringir.) við bíðum eftir úrræðum í framtíðarskipan húsnæðismála frá hæstv. félagsmálaráðherra.