143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála og ég skil hv. þingmann, það þarf að bæta þeim sem gengu á veggi og ekki fengu úrlausn. En það er ekki fólkið sem keypti húsnæði 1996 í Reykjavík með láni og húsnæðið hefur hækkað miklu meira í verði. Það fólk hefur ekki orðið fyrir neinum forsendubresti. Mér finnst að hv. þingmaður gera lítið úr þeim sem keyptu á síðustu árum og eru með 109% skuldsetningu ef hún segir að það sé enginn eðlismunur á stöðu þess fólks og fólks sem keypti 1996 og ekki hefur orðið fyrir neinu tjóni.

Ég vil einnig spyrja hv. þingmann vegna þess að hún hefur áður nefnt það: Hefur hún ekki áhyggjur af því að ekki fylgi frumvarp um afnám verðtryggingar? Lækkun á 20 milljóna láni í 4% verðbólgu mun valda því að eftir tvö ár erum við á sama stað. Er það ekki alveg ljóst að það eru alvarleg mistök ríkisstjórnarinnar að hafa ekki fyrst komið hér með afnám verðtryggingarinnar?