143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er það þannig að allir Íslendingar hafa með einhverjum hætti orðið fyrir forsendubresti. Ég held að enginn deili um það. Við sem þjóð höfum ákveðið að reyna að koma til móts við þá sem fóru verst út úr kreppunni, bankahruninu, því að það verður aldrei hægt að bæta heilli þjóð þetta hrun.

Telur hv. þingmaður að við séum að gera rétt núna? Við mættum þeim verst settu á síðasta kjörtímabili með þeim aðgerðum sem þá var farið í og líka varðandi leiðréttingu á gengislánum, ólöglegum, en vitað var að það var hópurinn sem keypti sér húsnæði, ungt fólk sem eignaðist sína fyrstu íbúð, frá árunum 2004 til 2005 fram að hruni sem stóð (Forseti hringir.) eftir. Telur hv. þingmaður að hann sé í góðum málum með þessum aðgerðum? Þarf ekki meira til?