143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:02]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er dálítið skemmt. Hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni finnst við framsóknarmenn vera skemmtilegt og fyndið fólk, þetta er virkilega mikill gleðidagur.

Eins og ég sagði áðan er um almenna aðgerð að ræða. Við erum að horfa til þess sem við framsóknarmenn töluðum um í kosningabaráttu okkur, að við værum að ræða um að leiðrétta forsendubrest vegna verðtryggðra fasteigna- eða húsnæðislána, þetta náði til þeirra. Þessi aðgerð, frumvarpið sem við ræðum hér, nær til 70.000 íslenskra heimila, þeirra heimila sem voru með verðtryggð húsnæðislán. Um er að ræða almenna aðgerð, því að allir sem voru með verðtryggð húsnæðislán á þessum tíma fá leiðréttingu.