143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:03]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir því að meiri hluti hyggst nú efna hluta af einum kosningavíxlinum, með allt öðrum hætti þó en lofað var upphaflega, korter í sveitarstjórnarkosningar. Kosningavíxill sem kemur til með að kalla yfir okkur enn verri stöðu en við erum í nú þegar án þess að honum fylgi aðgerðir sem skapa stöðugleika til framtíðar. Við ætlum að deila út peningum til sumra án tillits til eigna á kostnað annarra. Það er vissulega staðreynd að kjör almennings hafa rýrnað allverulega og greiðslu- og skuldastaða margra er grafalvarleg. En hverjir eru það? Eru það aðeins þeir sem skulda verðtryggð húsnæðislán? Hafa leigjendur ekki orðið fyrir forsendubresti? Ná öryrkjar sem ekki eiga húsnæði almennt endum saman? Hvað með eldri borgara sem tóku verðtryggð lán en eru ekki lengur á vinnumarkaði og geta því ekki nýtt sér séreignarsparnaðarleiðina? Eða unga fólkið sem nær ekki að safna sér fyrir fyrstu íbúð vegna þess að það er enginn afgangur? Það er algjörlega ljóst að þessi niðurfelling kemur til með að færa hópi fólks sem ekki er í neinum greiðsluvandræðum milljónir í vasann. Fjölmargir sem högnuðust á húsnæðiskaupum eiga nú að fá leiðréttingu. Við erum að fara að nota fé úr ríkissjóði til að lækka skuldir ákveðins hóps manna, en undanskilja þá hópa þjóðfélagsins sem eiga í mestu greiðsluerfiðleikunum og fengu svo sannarlega að finna fyrir umræddum forsendubresti.

Maður spyr sig líka hvort þetta sé það sem koma skal, að ríkið deili út gæðum í formi skattfjár eftir komandi efnahagslegar aðþrengingar til hluta þeirra sem fyrir honum urðu. Samræmist þetta til að mynda gildum Sjálfstæðisflokksins um takmörkuð ríkisafskipti? Það er forvitnilegt að vita hvort gildi hans hafi bara breyst eitthvað í þessu stjórnarsamstarfi.

Stóra spurningin er þessi: Hvers vegna eiga þeir sem skulda verðtryggð húsnæðislán og/eða eru á vinnumarkaði frekar kröfur á leiðréttingu á kjörum en þeir sem búa við jafnvel verri kjör vegna forsendubrests af öðrum ástæðum? Ætti það ekki að vera forgangsverkefni hæstv. ríkisstjórnar að nýta þessa skattpeninga í almennari aðgerðir sem nýtast öllum, til að mynda í gegnum heilbrigðis- og menntakerfið sem við vitum öll að er í miklum fjárhagsvanda statt? Frekar vill hæstv. ríkisstjórn nota þá til að greiða niður skuldir sumra á kostnað annarra, svo ekki sé talað um þann valmöguleika að greiða fremur niður skuldir ríkissjóðs og draga þar með úr vaxtabyrði sjóðsins og bæta kjör allra í leiðinni.

Helsta verkefni ríkisstjórnar og mesta hagsmunamál allra heimila ætti að vera að ná stöðugleika og ná niður verðbólgu og jafnvel verðhjöðnun. Þá þurfum við ekki að hlaupa til á nokkurra ára fresti og slökkva elda. Heimili og fyrirtæki í landinu gætu jafnvel farið að ná endum saman og gera langtímaplön, nokkuð sem Íslendingar þekkja varla.

Það er ekkert launungarmál að þessi aðgerð hugnast okkur ekki í Bjartri framtíð. Við sjáum enga framtíðarlausn í aðgerðinni og teljum hana byggjast á óréttlátri dreifingu gæða. Það er ekkert í henni sem bætir grunninn og framtíðarforsendur okkar sem búum í þessu landi. Við teljum því aðgerðina vera óhagkvæma, óréttláta og ekki stuðla að framtíðarlausn og stöðugleika.