143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:09]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir flottar spurningar. Ég held að við séum alla vega sammála um að þetta komi ekki öllum heimilum á Íslandi til góða, hvort sem við segjum sumra eða hluta af þeim. Ég held við séum ósammála um ef hv. þingmanni finnst 70.000 heimili vera allir.

Varðandi hvað við viljum gera fyrir íslensk heimili held ég að það hafi ekki farið á milli mála að við viljum einbeita okkur að grunninum. Hvernig sköpum við stöðugleika til framtíðar? Það liggja fyrir fjölmargar greiningar á því. Við höfum talað fyrir öðrum gjaldmiðli. Við höfum talað fyrir því að loka ekki á mögulega eina af fáum lausnum sem eru í sjónmáli, þá er ég að tala um aðildarviðræður við ESB. Ef við ætlum að dreifa gæðum hefðum við fyrst og fremst viljað einbeita okkur að heimilunum sem virkilega þurfa á því að halda. Ég er að horfa á greiningu hérna og þótt þið viljið tala um hlutfallslega sjáum við samt sem áður að til að mynda hlutdeild hópa í heildarniðurfærslu, hæsti tekjuhópurinn með 12 milljónir eða meira í árstekjur er með 16%. Ef við ætlum að fara út í að dreifa gæðum hefðum við viljað einbeita okkur að þeim sem eiga minnst, hafa minnst. Og það er ekki þannig samkvæmt því sem ég er með í höndunum, hvernig sem litið er á það.