143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Nú er það þannig að þeir hópar sem mikið eru dregnir fram í þessari umræðu skulda ekki verðtryggð húsnæðislán. Leigjendur skulda ekki verðtryggð húsnæðislán, enda er starfshópur á vegum félags- og húsnæðismálaráðherra að vinna að því og fara yfir öll húsnæðisúrræði frá A til Ö, þar á meðal fyrir leigjendur, þar á meðal fyrir þá sem eru í samvinnufélögum sem standa okkur hjarta nær, en það er ekki kafli í þessum aðgerðum. Þessar aðgerðir beinast að þeim hópi sem var skilinn eftir þegar leiðrétt voru lán í gegnum dómskerfið t.d. eins og gengislán. Þá var þessi stóri hópur skilinn eftir, sá hópur sem við höfum verið að einblína á. 60% af þessari aðgerð koma til góða þeim sem eru með meðaltekjur og minna. Það er alveg rétt að um 16% eru með milljón á mánuði í heimilistekjur. Hverjir eru það? Það eru t.d. tveir aðilar frá BHM samkvæmt meðallaunum þeirra samtaka. Eru þeir í hálaunastétt? Ekki í mínum augum. En 60% af þessum aðgerðum koma til góða þeim sem eru með 8 millj. kr. í árstekjur eða minna. Um 50% af aðgerðinni koma til góða heimilum sem eru með 6 milljónir í árstekjur eða minna. Hvað er það? Það eru tveir ASÍ-félagar sem vinna fyrir 250.000 kr. á mánuði. Er það hátekjufólk, hv. þingmaður? Ég held ekki.

Við erum með þessum aðgerðum að koma til móts við hóp sem sannarlega hefur verið skilinn eftir. Ég vil spyrja hv. þingmann hvað henni finnst rangt við það.