143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:16]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Mig langar af því tilefni að vísa í greinargerðina með frumvarpinu á bls. 14, í samantektina, með leyfi forseta:

„Efnahagsleg áhrif aðgerða til lækkunar skulda heimilanna eru um margt mjög óljósar og óvissan mikil, annars vegar vegna þess að aðgerðin er af áður óþekktri stærðargráðu, sem þau líkön sem matið byggist á hafa ekki reynslu af, …“

Eins og ég skildi það var spurningin til mín um hvað mér fyndist um þetta, er það ekki? Það er akkúrat þessi óvissa sem ég hef áhyggjur af. Ég er ekki sannfærð um það frekar en margir hérna inni að í fyrsta lagi séu verðbólguáhrifin ekki vanmetin, við höfum ekki reynslu af þessu áður. Vissulega er það hlutverk ríkisins að dreifa út gæðum að einhverju leyti, en við erum að horfa hér á áður óþekkta stærð af tekjutilfærslu.