143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi S. Björnsdóttur fyrir svarið. Hún vitnaði í greinargerðina. Vissulega er það svo þegar hagfræðin er annars vegar skiptir máli hvaða breytur eru notaðar. Vitnað er í greinargerð til tveggja greininga, annars vegar Seðlabankans og hins vegar ráðgjafarfyrirtækisins Analytica, og ólíkar breytur eru notaðar. Í greiningu Analytica er stuðst við raunveruleikann, áhrif þeirra aðgerða sem farið var í á síðasta kjörtímabili, árin 2010–2012. Samkvæmt þeim forsendum, að öllu öðru jöfnu eins og hagfræðingar mundu segja, yrðu áhrifin til einkaneyslu 0,1%, eða innan skekkjumarka og því óveruleg.

Í öðru langar mig að benda á það sem kemur jafnframt fram í greinargerð á bls. 14, með leyfi forseta:

„Tiltrú fjárfesta á hagkerfið skiptir verulegu máli fyrir fjárfestingu. Það er því jákvætt að stóru alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin þrjú hafa staðfest mat sitt á lánshæfi ríkissjóðs eftir að tilkynnt var um aðgerðirnar.“

Við verðum eftir sem áður alltaf útflutningsháð þjóð og það skiptir verulegu máli fyrir verðmætasköpunina að halda áfram að flytja út heimilunum til hagsbóta.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún meti áhrifin (Forseti hringir.) á ríkissjóð og heimilin í því samhengi ekki jákvætt.