143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:20]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna.

Vissulega skiptir tiltrú fjárfesta á hagkerfið verulegu máli. Mér finnst mjög ánægjulegt að hv. þingmaður komi inn á það af því að stundum hefur vantað upp á það í hans flokki að menn hafi sýnt slíkum greiningum virðingu. Ég fagna því ef svo er, að fleiri þættir komi þar inn í.

Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður sagði að um er að ræða tvær greiningar; Analytica, sem er einkafyrirtæki, og síðan Seðlabankinn. Og mismunandi aðferðir eru notaðar. En það sem ég vitnaði í var samantektin. Ég var ekki að vitna í þá greiningu sem var neikvæðari, þ.e. Seðlabankans.