143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekkert á móti hugtakinu „forsendubrestur“ ef það er þá notað jafnt yfir alla, ef það er notað á allt hagkerfið. Forsendurnar fyrir því að taka verðtryggt lán eru þær að verðið hækkar með verðbólgu. Það er það sem verðtryggt lán þýðir, það er það sem það hugtak þýðir, það eru forsendurnar. Þær brugðist ekki, svo mikið er víst.

Ef við ætlum að tala um forsendubrest skulum við bara tala um það fyrir alla, vegna þess að það voru ekki bara verðtryggð lán sem hækkuðu í verði. Eðli málsins samkvæmt hækkaði verðbólgan. Það þýðir að allt hækkaði í verði. Fólk þarf mat. Fólk þarf föt. Fólk þarf allar aðrar nauðsynjavörur. Það allt hækkaði líka í verði. Það er þá sami forsendubresturinn. Leigjendur borga nú miklu hærra verð fyrir leigu og eðlilega vegna þess að húsnæðið er einfaldlega dýrara. Lánin kosta meira, þá er leigan dýrari, það er beint samhengi þar á milli og mjög augljóst í þokkabót. Það er forsendubrestur þar og leigjendur þurfa þak yfir höfuðið alveg eins og þeir sem þó hafa haft efni á því einhvern tímann í lífinu að eiga eitthvað sjálfir.

En forsendubresturinn sem á við um hin svokölluðu heimili, sem ég ætla ekki að skilgreina hér og nú, átti líka við námsmenn, þeir eru líka með verðtryggð lán. Og jafnvel þó að þeir væru ekki með verðtryggð lán væri sá forsendubrestur samt sem áður til staðar þegar kemur að neyslu námsmanna á öllu öðru.

Öryrkjar, guð minn góður. Enginn hefur upplifað annan eins forsendubrest og öryrkjar. Það fyrsta sem gerðist hér eftir hrun var að hætt var við að hækka örorkubætur í samræmi við verðbólgu að hluta til til að sýna trúverðugleika ríkisins. Sá hópur borgar leigu. Sá hópur hefur haft það langverst í kjölfar hrunsins. Ef einhvers staðar var forsendubrestur var það þar.

Ef við ætlum að tala um forsendubrest eigum við ekkert að tala um það í sérstöku samhengi við heimilin. (Forseti hringir.) Við eigum bara að tala um það í efnahagslegu samhengi almennt. Ég held bara að neytendur þori ekki að nota orðið í því samhengi.