143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér tölurnar nógu vel til að svara þeirri spurningu eða vinnunni að bak við þetta, ég verð að viðurkenna það. En svo fattaði ég eða áttaði mig á, afsakið, virðulegi forseti, þegar ég steig niður úr pontu að ég svaraði ekki seinni spurningu hv. þingmanns sem varðaði sjónarmið mín gagnvart velferðarkerfinu og að nota bankaskattinn í velferðarkerfið.

Ef við lítum á bankaskattinn sem almennan skattstofn liggur alveg ljóst fyrir að hann færi í þetta sameiginleg púkk ef við værum að nota hann þannig, það yrði síðan notað eins og allar aðrar skatttekjur, ýmist til að borga niður skuldir eða útgjöld ríkisins, velferðarkerfið þar á meðal, og auðvitað til að borga þessa ógurlegu vexti.

Ég hef einhvern veginn alltaf litið á bankaskattinn og réttlætt hann að stórum hluta til vegna þess að bankarnir ollu hruninu þegar allt kemur til alls. Í því samhengi lít ég svo á, persónulega, alla vega eins og er, ég er allur eitt stórt eyra í því sambandi, að ríkistekjurnar af bankaskattinum eigi að nota til að eiga við afleiðingar hrunsins. Þær afleiðingar sé ég fyrst fremst í agalegri skuldastöðu ríkissjóðs. Eins og er akkúrat núna, hér og nú, finnst mér að nota eigi allan skattinn í það að greiða af lánum ríkissjóðs, það er mín persónulega skoðun hér og nú. Hún gæti vel breyst, en það fer eftir því á hvaða forsendum skatturinn er lagður. Bara til að segja þetta aftur mjög hratt: Ef forsendan fyrir bankaskattinum er sú að hann sé almennur tekjustofn ríkisins, gott og vel, þá notum við hann eins og annan skatt. En ef forsendan fyrir bankaskattinum er sú að fá aftur til baka, hvað segir maður, það sem þarf til þess að greiða upp vegna tjóns af hruninu, finnst mér að þann skatt ætti að nýta alfarið í að borga upp það tjón.