143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það þýðir ekkert að tala um svigrúm í annarri merkingu en þeirri sem ég var að nota það hér. Þannig hefur þessi umræða þróast, hún hefur grundvallast á þeim skilningi. Ég var þeirrar skoðunar að hægt hefði verið að ná fram samningum við kröfuhafa, með því að nota þau vopn sem fyrri ríkisstjórn hafði búið til, sem hefðu skapað allmikið svigrúm í krónum, hugsanlega hærra en það sem hv. þingmaður lét sér um munn fara áðan.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það tækifæri sé ekki algjörlega farið forgörðum en mér finnst núverandi ríkisstjórn hafa verið ákaflega sein á sér og ég óttast að — ég vil ekki orða það þannig að hún sé að klúðra þessum málum, en það er ljóst að kröfuhafar hafa náð vopnum sínum talsvert. Það er klúður hjá hv. ríkisstjórn.

Ég er svo aftur sammála hv. þingmanni um það að ef til verður svigrúm á að nota það handa þeim sem mest þurfa á því að halda. (Forseti hringir.) Ég geri engan ágreining við skoðanir hv. þingmanns á því hvernig ætti helst að byrja.