143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Nokkrir hv. þingmenn hafa rætt hér andrúmsloftið sem umlykur stjórnmálin og okkar störf. Ég greip orðið á götunni sem berst til okkar gegnum eyjan.is. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Þjóðin er orðin dauðleið á endalausum deilum um keisarans skegg. Dag er tekið að lengja. Vorilmur er í lofti. Bjartsýni fer vaxandi. Grillkjötið er komið í hillur matvöruverslana. Ágætt væri að hinir kjörnu fulltrúar okkar á löggjafarsamkundunni tækju í auknum mæli mið af því.“

Ég upplifi sannarlega vorilminn og bjartsýnina. Það er notaleg tilhugsun að sjá fyrir sér grillstundina renna upp. Þau skilaboð til okkar í okkar störfum að láta af endalausum deilum um keisarans skegg, eins og það hljómar af götunni, minnir okkur þó á hve ábyrgðarmikið erindi okkar við þjóðina er. Sannarlega eru mörg mikilvæg mál undir.

Hæstv. forseti. Við hv. þingmenn megum ekki verða ónæmir fyrir slíkri gagnrýni eða sýn kjósenda á okkar störf. Ég upplifi reyndar málefnalega og auðvitað stundum beitta rökræðu í okkar störfum þegar við missum okkur ekki í að ræða um fundarstjórn hæstv. forseta í of miklum mæli. Það er vissulega ávallt í okkar höndum að greiða fyrir skilvirku þinghaldi, klára mikilvægu málin og leiðrétta verðtryggð fasteignaveðlán heimilanna.

Ég trúi því að græna vorið sé runnið upp.