143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ákvað að nýta mér þann rétt í þingsköpum til að taka þátt í þessum dagskrárlið og leggja spurningu fyrir hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, sem hún hefur samþykkt að svara hér á eftir mér, sem snýr að skuldaleiðréttingu sem mikið er rætt um. Ég hef auðvitað tekið eftir því að hv. þingmaður er mjög dugleg að koma upp undir liðnum um störf þingsins og ræða þessi mál og hvað hún vilji gera. Mér finnst mikill myndarbragur að því vegna þess að mér finnst hún vilja ganga miklu lengra en gert er ráð fyrir í því stjórnarfrumvarpi sem við erum að tala um núna.

Þess vegna langar mig að leggja tvær spurningar fyrir hv. þingmann.

Er afnám verðtryggingar á eldri lánum ekki forsenda fyrir því að skuldaleiðréttingin verði varanleg?

Hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að ég hef séð dæmi frá aðila sem telur sig fá úr þessari skuldaleiðréttingu 2–3 millj. kr. á 20–25 millj. kr. láni og hann hefur reiknað það út að miðað við 4% verðbólgu hverfi ávinningurinn á tveimur og hálfu til þremur árum.

Hin spurningin til hv. þingmanns er um það sem stendur í frumvarpinu um allar aðrar skuldaleiðréttingar sem eru samkvæmt fréttum frá velferðarráðuneytinu um 82 milljarðar kr., þá í kringum greiðslujöfnun Íbúðalánasjóðs, sérstaka skuldaaðlögun, 110%-leiðina, vaxtabætur og sérstakar vaxtabætur á síðasta kjörtímabili. Allt þetta á að koma til frádráttar því sem kemur út úr þessari boðuðu leið sem 72 milljarðarnir eiga að taka til.

Verkalýðsforingi á Akranesi, í hennar heimabæ, hefur gagnrýnt þetta mjög eftir að Frosti Sigurjónsson upplýsti á Alþingi fyrir töluvert löngu að þetta kæmi til frádráttar og hafði um það stór orð á Facebook-síðu sinni þar sem hann krafði forsætisráðherrann svara.

Ég spyr hv. þingmann: Voru það þessar leiðir sem framsóknarmenn (Forseti hringir.) boðuðu fyrir kosningar? Er það þetta sem Framsókn vill gera?