143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:32]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna en vil jafnframt segja að það er alltaf jafn erfitt að ræða þessi yfirgripsmiklu mál, Evrópumálin, í hálfgerðum skeytastíl. Þetta er gríðarlega yfirgripsmikið. En þá vil ég líka fagna skýrslunum sem hafa komið út undanfarið, tvær skýrslur Hagfræðistofnunar og Alþjóðamálastofnunar. Eins líka hvet ég til þess að menn rifji upp skýrslu Seðlabankans sem er eins og hálfs árs gömul um valkosti í gjaldmiðilsmálum.

Það eru að safnast upp upplýsingar. Fyrst vil ég segja sem viðbragð við ræðu hæstv. fjármálaráðherra: Mér finnst mjög mikilvægt að hafa það alltaf skýrt í huga að Evrópusambandið er ekki einhvers konar klúbbur sem er annaðhvort góður eða slæmur. Hann er fyrst og fremst samvinnuverkefni. Evrópusambandið er samvinnuvettvangur fullvalda ríkja (Gripið fram í.) vegna þess að heimurinn er uppfullur af vandamálum. Það eru vandamál í efnahagsmálum, það eru vandamál í loftslagsmálum, í vinnumarkaðsmálum. Evrópuríkin, að fenginni biturri reynslu, hafa ákveðið að mynda samvinnuvettvang sem meðal annars hefur fengið friðarverðlaun Nóbels vegna þess að það hefur tekist að viðhalda friði í Evrópu meðal annars í gegnum þann samvinnuvettvang.

Þetta finnst mér geysilega mikilvægt að hafa í huga. Spurningin sem blasir við okkur er ekki sú hvort við ætlum að vera þátttakendur á þeim samvinnuvettvangi eða ekki, vegna þess að við erum þegar þátttakendur á honum að tveimur þriðju eins og skýrsla Alþjóðamálastofnunar rekur ágætlega, heldur sú hvort við ætlum að vera að fullu þátttakendur eða aðeins að tveimur þriðju. Það er spurningin sem blasir við Íslendingum núna nema einhver vilji segja upp EES-samningnum sem ég hef ekki heyrt neinn halda fram að sé skynsamlegt.

Mér finnst mjög mikilvægt að setja þetta inn í samhengið. Svo er svolítið verið í þeim stuttu umræðum sem við eigum hér, eins og í sérstökum umræðum, að draga fram einstök dæmi eins og Spán varðandi atvinnuleysi. Atvinnuleysi á Spáni, að ég hygg, var líka mjög mikið á Franco-tímanum. Það er einfaldlega áratugalöng saga atvinnuleysis þar vegna þess hvernig vinnumarkaðsmálum er hagað þar. Það er orðið leiðigjarnt að heyra það dæmi alltaf nefnt um einhvers konar sérstakt atvinnuleysi út af evru.

Sumum ríkjum vegnar vel í Evrópusambandinu, öðrum vegnar ekki eins vel, en öll hafa ríkin trú á því að samvinna sé lykilatriði.

Og hvað blasir við okkur? Það var hafin samvinna í gengismálum, það var hafin samvinna við Evrópska seðlabankann sem hluti af viðræðunum við að leysa úr ógnarstórum vanda Íslendinga sem er króna í höftum. Ég sakna þess að fá það ekki útskýrt af hverju við reiðum okkur ekki á samvinnu við Evrópusambandið og áframhaldandi aðildarviðræður í því að leysa okkar ógnarstóra vanda.

Það finnst mér blasa við sem leið sem er í öllu falli mikill ábyrgðarhluti að loka á þessum tímapunkti. Það er það sem ríkisstjórnin ætlar hins vegar að gera — eða ég leiði að því líkum nema hún sé hætt við það, hætt við að hætta.

Eitt sem er líka í umræðunni, hún er farin að minna mig svolítið á ákveðna rökræðu sem ég átti í heimspekináminu. Það var rökræðan við róttæka efahyggjumanninn. Róttæki efahyggjumaðurinn gat alltaf haldið því fram að eitthvað væri ekki til, að ég væri ekki til, þetta hús væri ekki til, jörðin væri ekki til, við værum öll skynvilla. Hann gat beðið mig um að sanna að ég væri ekki skynvilla. Svona gátu hlutirnir haldið áfram og þessi rökræða gat tekið ansi langan tíma þegar maður var ungur að árum.

Ég er farinn að upplifa Evrópusambandsumræðuna svolítið þannig. Tökum dæmi með sérlausnirnar, það er alveg sama hversu margir fræðimenn tiltaka dæmi um sérlausnir sem eru fyrir hendi, það er alveg sama þótt nefnt sé að Íslendingar sjálfir hafi í aðildarviðræðunum hingað til fengið sérlausnir, við fengum sérlausnir í EES-samningnum, önnur ríki eru að fá alls konar sérlausnir eða undanþágur — það kemur alltaf þetta: Þær eru ekki til. (Forseti hringir.) Stundum var eina svarið í þessari rökræðu við róttæka einfaldlega að klípa hann í kinnina og spyrja hvort hann hafi ekki fundið fyrir þessu. Og þá er hann til.