143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:40]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég sat á fundi utanríkismálanefndar í morgun með nokkrum af skýrsluhöfundum. Við sátum þarna í um tvo klukkutíma og niðurstaðan var eftirfarandi: Við getum spekúlerað um hugsanlega mögulega en eina leiðin til að fá einhverja niðurstöðu er að klára viðræðurnar. Við getum ekki komist að neinni vitrænni niðurstöðu, við getum talað okkur þangað til við erum rauð í framan í þessum stól eða við talað niður til fræðimanna sem koma til okkar í þingið. Mér þótti bagalegt og eiginlega skammarlegt að verða vitni að því enn og aftur að þingmenn settu ofan í við og gerðu lítið úr fræðimönnum sem komu í heimsókn til okkar. Það er neyðarlegt. (FSigurj: Það var einn þingmaður sem gerði það.) Já, það var einn þingmaður sem gerði það en þetta var ekki í fyrsta skipti, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem slíkt viðgengst á þinginu. Ég vildi óska að við hættum því vegna þess að það er ljótt að vera að draga alltaf í efa að fólk vinni vinnuna sína vel. Ég held að við ættum kannski að líta í eigin barm.

Nú erum við búin að missa af tækifærinu til að greiða atkvæði um áframhald viðræðna í kringum sveitarstjórnarkosningar þannig að ég held að það fari best á því að við byrjum að undirbúa og leggjum hreinlega fram tillögu þar að lútandi, og ég skora á þingmenn að láta einhverja nefndina taka það að sér, t.d. utanríkismálanefnd, að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla til að bregðast við vilja yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar um að fá að hafa aðild að ákvarðanatöku um ferli málsins. Ég held að það fari best á því, til að sýna ríkisstjórninni smá skilning í ómöguleika hennar við að framfylgja vilja þjóðarinnar, að það verði gert samhliða forsetakosningum. Ég sé enga hnökra á því að við drífum okkur í að setja tillöguna saman, utanríkismálanefnd, og þetta verði þannig að við slítum ekki viðræðum fyrr en vilji þjóðarinnar liggur fyrir. Og ef þjóðin vill ekki slíta viðræðum heldur halda þeim áfram og ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til að verða við þeim vilja er miklu einfaldara, eins og ég hef sagt áður, að skipta um ríkisstjórn en að skipta um þjóð.

Ég er skáld og ég hef lent í því að enginn skilur ljóðin mín á sama hátt og sú sem skrifaði þau, fólk les eitthvað allt annað í ljóðin mín, algerlega út frá sínum eigin heimi. Það sama má segja um allar þær skýrslur sem við fáum hér, ef við einblínum ekki á staðreyndirnar og byrjum að túlka hugsanlega möguleika fær enginn sömu niðurstöðuna, það er bara þannig. Við erum að rífast um hluti sem við munum aldrei fá nokkra niðurstöðu í nema klára ferlið og verða við vilja þjóðarinnar í því. Svo einfalt er það. Það eru auðvitað alls konar hnökrar. Þetta er ekki 100% gott eða vont. En við fáum enga niðurstöðu fyrr en við erum búin að ljúka aðildarviðræðunum og samningurinn verður lagður í dóm þjóðarinnar.