143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:54]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu og lýsa því yfir að ég tel þá skýrslu sem er til umræðu frá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands gagnlega. Hún er hins vegar ekki hafin yfir gagnrýni og hún er ekki gallalaus frekar en aðrar skýrslur sem unnar hafa verið að undanförnu og hafa verið til umræðu hér, en hún er mikilvægt innlegg í umræðuna til að hægt sé að reyna að móta sér heildarsýn.

Það er kallað eftir vitrænni og vandaðri umræðu um ESB-málið og til mynda hæstv. fjármálaráðherra, sem var við umræðuna áðan, hefur gert það. Ég verð þó að segja að tillöguflutningur hæstv. ríkisstjórnar sem hæstv. fjármálaráðherra er hluti af er að mínu viti ekki í þeim anda að stuðla að vitrænni og vandaðri umfjöllun um ESB-málið. Það er mikilvægt að kanna kosti og kalla fyrir Ísland til hlítar og það er ekki leikrit. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á fundi í Sjálfstæðisflokknum fyrir skemmstu að hann tæki ekki þátt í því leikriti sem fælist í því að kanna til hlítar kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu. 80% þjóðarinnar lýsir því yfir í skoðanakönnunum að hún vilji ljúka viðræðum við Evrópusambandið en fjármálaráðherra ætlar ekki að taka þátt í því leikriti, segir hann, sem er vilji 80% þjóðarinnar. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta sérkennileg yfirlýsing af hálfu formanns Sjálfstæðisflokksins og kemur mér eiginlega á óvart að hún skuli koma frá honum.

Valkostir Íslands í gjaldmiðilsmálunum eru stefnumarkandi ákvörðun fyrir framtíðina. Kostirnir þurfa að liggja á borðinu. Í skýrslu Seðlabankans, ekki mjög gamalli, um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálunum eru fyrst og fremst tveir kostir dregnir upp, annars vegar áframhaldandi íslensk króna en þá væntanlega í höftum, eða hins vegar upptaka evru gegnum aðild að Evrópusambandinu.

Ég er sammála hæstv. fjármálaráðherra um að spurningin um aðild að Evrópusambandinu er miklu stærri en svo að hún lúti að afmörkuðum þætti, hvort sem það eru gjaldmiðilsmálin eða jafnvel sjávarútvegsmálin vegna þess að sumir taka afstöðu út frá öðrum þáttum, t.d. afstöðu sinni til og lífssýn um það hvort þeir vilji vera í ríkjasambandi eins og Evrópusambandinu eða ekki. Það eru því fleiri þættir sem hér koma inn í. En í umræðunni um gjaldmiðilsmálin sem er til umfjöllunar er að mínu mati mikilvægt að kippa ekki öðrum meginvalkostinum út af borðinu í miðju ferli. Það er ekki viturlegt að gera það. Það er ekki viturlegt fyrir umræðuna og fyrir lokaákvörðun, þegar að henni kemur, að kippa öðrum af meginkostunum út af borðinu. Kostirnir eru í meginatriðum króna í höftum eða evra í gegnum ESB.

Virðulegur forseti. Hvar er þá áætlun um afnám haftanna? Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvort það er hægt að afnema höftin. Hæstv. fjármálaráðherra hefur að undanförnu talað um að það eigi að vera hægt og frekar hraðar heldur en ekki. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hafi rétt fyrir sér en ég efast mjög um það. Ég held að það verði mjög þungur róður að afnema höftin fyrir okkur á næstu missirum.

Það var ekkert samráð haft meðal annars við Evrópusambandið um afnám hafta. Hæstv. fjármálaráðherra á vettvangi utanríkismálanefndar hafði frumkvæði að því að óska eftir slíku samráði. Hvenær var því hætt? Af hverju var Alþingi ekki upplýst um það þegar það gerðist? Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því.

Ég vil líka segja að ég tel að mikilvægt að það sé þverpólitísk vinna og þverpólitísk samstaða um vinnu við afnám gjaldeyrishaftanna. (Forseti hringir.) Ég held nefnilega að afnám gjaldeyrishaftanna geti leitt til efnahagslegs óstöðugleika en líka pólitísks og samfélagslegs óstöðugleika ef ekki er vel á málum haldið og ef ekki er pólitísk samstaða um þær aðferðir sem þar eru notaðar. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til að stuðla að því að svo verði.