143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef jafn miklar áhyggjur og hv. þingmaðurinn af þessari reglugerðarheimild. Ég hef velt því fyrir mér hvort ég skilji hana einfaldlega ekki, en mér skilst að með reglugerðarheimildinni muni hann ákveða hvert verðbólguviðmiðið verði. Ég held að eina leiðin til að segja það væri að það væri vegna þess að það á aldrei að fara upp fyrir 20 milljarða mínus kostnað. En það stendur hvergi.

Það þýðir líka að það verður mun erfiðara fyrir fólk að vita hvað það fær. Það er búið að segja svo oft, ég man ekki einu sinni hvenær sú klisja byrjaði, að það verði auðvelt fyrir fólk að fá að vita hvað það fær, það geti reiknað það út eða áætlað. Ekkert af því hefur staðist.

Áhrif frádráttanna, það er ein óvissan enn. Það minnir mig á það sem ég gleymdi að minnast á í ræðu minni en er eins og hluti af þessum frádráttum sem ég hef í mínum huga kallað smáa letrið í frumvarpinu. Það er að fyrstu leiðréttingar, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson benti réttilega á, koma strax til greiðslu en ef fólk hefur farið í greiðslujöfnun eiga fyrstu leiðréttingar að fara beint inn á jöfnunarreikninginn. Það held ég að fáir kjósendur hafi haft hugarflug eða hugmyndaauðgi til að ímynda sér. Ekki hafði ég það, og ég á bágt með að trúa að það muni ekki koma fólki á óvart.