143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Hér er að raungerast einn liður af tíu liða aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna á Íslandi eins og sú áætlun er orðuð í þingsályktunartillögu sem samþykkt var á sumarþingi á miðju síðasta ári. Þessi hluti var á ábyrgð hæstv. forsætisráðherra og ráðherranefndar sem skipaði sérfræðingahóp í ágúst síðastliðnum og sá hópur skilaði svo skýrslu í lok nóvember sem var kynnt í Hörpu. Í kjölfarið hafa starfshópar sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra skipaði unnið að þessu frumvarpi í nánu samráði við verkefnisstjórnina.

Hugmyndafræðin lá fyrir en það lá jafnframt fyrir að þetta yrði flókið verkefni í skipulagi og útfærslu. Það kallaði á samráð, mikla samvinnu og samræmingu, að ógleymdri vinnu við upplýsingatæknilegan hluta verkefnisins. Skipulagið má sjá í frumvarpinu sem við fjöllum hér um á bls. 11. Þar sést glöggt hversu viðamikið verkefnið er í raun og veru og það er augljóst að hér hefur enginn setið auðum höndum við undirbúninginn og framkvæmdina og þá hagnýtu útfærslu sem grundvallast á því frumvarpi sem við ræðum hér.

Það segir í 1. gr. frumvarpsins að markmiðið sé að kveða á um skipan og fyrirkomulag leiðréttingar á verðtryggingu fasteignaveðlána heimila á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Í þeirri skipan og fyrirkomulagi er að finna þann megintilgang sem er tilurð frumvarpsins, eða laganna þegar þau verða samþykkt, sem ég tel að geti orðið góð samstaða um þegar við verðum búin að ræða okkur í gegnum þetta. Tímabilið sem um ræðir er nákvæmlega það tímabil þar sem verðfall krónunnar í kjölfar hrunsins verður mest, verðbólgan fer úr böndum og skellur kemur á skuldir heimilanna sökum verðtryggingarskilmála þeirra. Sá skilgreindi forsendubrestur sem við tölum gjarnan um endurspeglast að einhverju leyti í þessari lýsingu.

Oft er reynt að gera lítið úr þeim skilningi út frá orðnotkuninni þannig að allt annað og fleira sem miður fer í okkar samfélagi megi skilgreina sem forsendubrest. Vissulega má færa fyrir því rök. Það breytir því ekki hins vegar að forsendur þær sem lántakar gáfu sér við lántöku brustu langt umfram það sem ætla mætti að gæti gerst. Ráðherra er síðan gert heimilt að ná samningi við lánastofnanir með uppgjör hinnar almennu leiðréttingar.

Það er mikilvægt að horfa til þessara aðgerða sem almennra og horfa til heimilanna sem annarrar af grundvallarefnahagseiningum hagkerfisins. Þarna er mikilvægt að hafa viðmið og má gjarnan skoða skuldir heimilanna sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og skoða í samanburði við aðrar þjóðir til að sjá tilganginn og átta okkur á því hvar við stöndum með hag heimilanna og skuldastöðu þeirra sem einn þátt í lífskjaraviðmiðum okkar.

Um leið og við förum í slíkar almennar aðgerðir, jafn umfangsmiklar og þær eru, er mikilvægt að afmarka þær. Þannig tekur þessi leiðrétting til verðtryggðra fasteignalána. Fasteign er stærsta almenna fjárfesting heimilanna og fjármögnunin þar með almennt stærsta skuldbindingin sem fylgir. Í gegnum slíka almenna aðgerð náum við til flestra heimila sem urðu fyrir skellinum sem olli heimilunum mestum fjárhagslegum vandræðum og setti í raun fjárhag og ráðstöfunargetu þeirra úr skorðum.

Auðvitað urðu fjölmargir aðrir hópar fyrir búsifjum og ekki má horfa fram hjá því. Það verður hins vegar að leita annarra úrræða í þeim efnum. Ég vil minna á að þingsályktunartillagan, aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar, var í tíu liðum. Þannig eru vissulega hópar sem þessi aðgerð nær ekki til en það er hvorki tilefni til að gera lítið úr markmiðum aðgerðarinnar né heldur útiloka að aðrar aðgerðir þurfi og/eða verði að veruleika til að leysa vanda annarra hópa.

Umsóknartímabilið samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er tilgreint 15. maí til 1. september. Í því sambandi rifjast upp fyrir mér sú gagnrýni sem dundi yfir í upphafi þessa kjörtímabils varðandi það hvers vegna væri ekki hreinlega búið að framkvæma aðgerðina eða, eins og það var oft orðað, af hverju tékkinn væri ekki kominn inn á reikninginn. Ég verð hins vegar að segja að það er augljóst miðað við þessar dagsetningar og útfærslu aðgerðanna að vel og markvisst hefur verið unnið. Þrátt fyrir að hugmyndafræðin liggi fyrir og sé ígrunduð kostar útfærslan gríðarlega mikla og tímafreka vinnu. Við afgreiðslu umsóknar, öflun og miðlun upplýsinga er mikilvægt að heimila ríkisskattstjóra slíkt umboð umfram það sem viðhaft er til að greiða fyrir afgreiðslu umsóknar og auðvelda framkvæmdina. Frá þessu er gengið í 5. og 6. gr. frumvarpsins. Í 7. gr. frumvarpsins er svo skilgreindur og lögfestur útreikningur leiðréttingarinnar og hámarkið tilgreint, 4 millj. kr. á hvert heimili. Auðvitað má togast á um þakið eða hámarkið en eins og stundum er sagt; það verður að setja mörk. Að sama skapi má sýna því skilning að til frádráttar komi þær aðgerðir sem ráðist var í á síðustu árum og hafa komið til lækkunar, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem þær hafa ekki dugað eða náð nógu langt. Í raun er verið að haga framkvæmdinni þannig að sem gleggst og tilhaganlegast sé fyrir lántakann. Á ég þar við skiptingu lánsins í frumhluta þar sem lántakinn sér eftirstöðvarnar og heldur áfram að greiða eftir sem áður en leiðréttingarhlutinn er skilinn frá án þess að gengið sé á nokkurn rétt lánveitandans.

Það kemur m.a. fram í athugasemdum með frumvarpinu að aðgerðirnar — þ.e. skuldaleiðréttingarhlutinn sem þetta frumvarp nær til og skattleysi séreignarlífeyrissparnaðar, frumvarp sem er nú til umfjöllunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd — muni saman lækka húsnæðisskuldir heimilanna um 150 milljarða eða 12%. Slík almenn aðgerð til lækkunar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána er í eðli sínu efnahagsleg aðgerð. Við verðum þó að varast að einblína á meginmarkmiðið sem er að grynnka á húsnæðisskuldum heimilanna og efla þannig hag heimilanna og efnahagslegan styrk. Við verðum og að taka tillit til heildaráhrifa á hagkerfið. Hagkerfið er hringrás verðmæta og til að slíkar aðgerðir virki til lengri tíma verður að taka tillit til efnahagslegra áhrifa af slíkri aðgerð til skemmri tíma og á hagkerfið í heild sinni eða efnahaginn í heild sinni og þar með talið efnahag heimilanna. Þar skiptir umfang og tími úrvinnslunnar auðvitað máli.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hér hefur verið faglega unnið. Auðvitað deilum við um hugmyndafræðina og forgangsröðun þess hvert fjármunirnir eigi og megi fara. Heildaráhrif af aðgerðunum til skemmri tíma eins og áhrif á verðstöðugleika og svigrúm til skyndiaukningar einkaneyslu eru dempuð. Með tilliti til umfangs og samspils aðgerða er útfærslan í frumhluta og leiðréttingarhluta einstaklega vel hugsuð þar sem heimilin finna fyrir og sjá glöggt alla leiðréttinguna á meðan hún er látin ganga yfir á fjórum árum gagnvart lánveitendum. Þetta mun tryggja að leiðréttingin gagnast mun betur og verður síður rutt út af öðrum mögulegum neikvæðum áhrifum sem vissulega er hætta á ef ekki er vandað til verka.

Við mat á hugsanlegum áhrifum er annars vegar stuðst við greiningar ráðgjafarfyrirtækisins Analytica. Var sú greining gerð að beiðni sérfræðingahópsins og byggði á reynslu og tölfræðilegu mati á þeim þjóðhagslegu áhrifum sem hafa orðið af skuldaleiðréttingum árin 2010–2012. Hins vegar er stuðst við greiningu Seðlabankans á hugsanlegum áhrifum aðgerðanna og var sú greining birt í Peningamálum í febrúar sl. Sú greining hefur aftur á móti þann tilgang að nýtast peningastefnunefnd við vaxtaákvarðanir. Hún er ekki gerð fyrir þessa aðgerð sérstaklega.

Ólíkar greiningar eru hins vegar nauðsynlegar í umræðunni og báðar þessar eru virkilega gagnlegar. Ef við tökum og skoðum frekar greiningu Analytica byggir hún á því sem raunverulega hefur gerst en greining Seðlabankans á líkani sem liggur til grundvallar ákvörðunum peningastefnunefndar til vaxtaákvarðana. Þar liggur meginmunurinn.

Á bls. 12–14 er gerð grein fyrir þessum efnahagslegu áhrifum og vitnað til beggja greininga. Þegar efnahagsleg áhrif samkvæmt þessu eru skoðuð er mikilvægt að hafa í huga að það er jákvætt markmið þessara aðgerða að auka ráðstöfunargetu heimilanna og efla hag þeirra. Þar er ekki síst mikilvægt að ná niður skuldsetningu heimilanna sem efnahagseiningar. Ég held að við getum öll verið sammála um það að 108% skuldsetning sem hlutfall af landsframleiðslu er of hátt hlutfall. Við getum staðfest það með því að taka alþjóðleg viðmið þar með þar sem þetta er með því hæsta sem gerist í Evrópu.

Ég tel afar mikilvægt, til að efla virkni og þátttöku heimilanna í efnahagshringrásinni, að skoða þessa almennu aðgerð heildrænt. Það liggur fyrir samkvæmt greiningum að einkaneysla muni að líkindum aukast en það gerist auðvitað vegna þess að ráðstöfunargetan eykst, og það er jákvætt, greiðslubyrðin lækkar og eiginfjárhlutfallið hækkar. Þá er ég að tala um efnahag heimilanna og eiginfjárhlutfall í fasteign.

Við verðum sem þjóð eftir sem áður útflutningsháð og byggjum afkomu okkar áfram á að skapa verðmæti úr framleiðsluþáttum okkar. Þá má og benda á þá mikilvægu staðreynd að tiltrú fjárfesta á hagkerfið hefur aukist. Það er viðurkennt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að lánshæfismat hefur batnað eftir að tilkynnt var um aðgerðina, það er afleiðing þeirrar tilkynningar.

Virðulegi forseti. Ég vil benda á í lokin á ræðu minni að í frumvarpinu á bls. 14–17 eru dregin fram áhrif á samfélagshópa, m.a. eftir aldri, skuldsetningu og tekjum. Þar kemur fram að um 60% af umfangi leiðréttinganna fara til heimila með árstekjur undir 8 millj. kr. en það eru mánaðartekjur fyrirvinnu tveggja einstaklinga með rúmlega 300 þús. kr. á mánuði, 333 þús. svo nokkuð nákvæmt sé, hvor um sig. Þá hækkar meðalfjárhæð niðurfærslunnar eftir því sem börnum á heimili fjölgar. Ánægjulegast er þó að mestur hluti leiðréttingarinnar fer til ungra fjölskyldna í landinu. Eitt er víst. Einkaneysla er lág í sögulegu samhengi, skuldir heimilanna eru háar í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Hér er verið að stíga mikilvægt skref til að létta á skuldsetningu og greiðslubyrði heimilanna almennt og í efnahagslegu samhengi og klára í raun og veru þá vegferð sem hafin var á síðasta kjörtímabili.