143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:12]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu og um margt áhugaverða hugvekju. Það er vissulega margt í frumvarpinu og kannski umhugsunarefni sem á bak við það býr sem er sannarlega lagt fram með góðum hug og hugsað þannig að það eigi að koma til móts við líklega þann hluta heimila landsins sem hafa lent í erfiðleikum. Það er náttúrlega falleg hugsun og ég veit að þingmenn eru alveg sammála því að það er falleg hugsun.

Hv. þingmaður nefndi að það væri kannski hægt að verja þessum peningum betur og úr því hægt væri að leggja skatt á bankana þá væri kannski hægt að nota þá peninga til annarra verka, eða jafnvel eins og þingmaðurinn nefndi að greiða niður lán eða skuldir ríkisins. Mig langar að spyrja hana út í hvar þingmaðurinn teldi að þeim peningum væri betur varið. Telur þingmaðurinn til dæmis að koma megi með enn frekari innspýtingu í heilbrigðiskerfið eða menntakerfið? Væri það skynsamlegri notkun á þeim peningum? Og hvort peningainnspýting í eitthvað af stofnframkvæmdum mundu þá auka til að mynda atvinnustig og þar sem atvinnu vantar o.s.frv., hvort þetta gæti skipt máli.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann út í það hvað þingmanninum finnst um til dæmis þá sem búa í leiguhúsnæði þar sem leigan er tengd vísitölu, hvort hún mundi sjá það fyrir sér að í meðförum nefndarinnar yrði tekið á því máli.