143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:20]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir ræðu hennar. Ég vil byrja á því fyrst að svara því sem vísa ætti til nefndarinnar, efnahags- og viðskiptanefndar, þ.e. að kanna það hvort verið sé að brenna peninga með því að lækka skuldir 70 þúsund heimila um 80 milljarða. Ég deili ekki þeim áhyggjum, ég held að við gerum fátt betra við peninga en að lækka skuldir og hvet alla til að hugsa um það, ef þeir eiga lausa peninga, að nota þá til að lækka skuldir sínar. Þannig mun vaxtabyrði þeirra lækka og það er fátt sem getur skilað betri lífskjörum en að greiða niður skuldir sínar eigi maður þess nokkurn kost.

Í ræðu hv. þingmanns komu fram vangaveltur um að það væri slæmt að þeir sem skulduðu lítið fái þannig minni leiðréttingu. Væntanlega skulduðu þeir lítið af því að þeir höfðu lítið lánstraust, voru búnir að greiða niður mikið af lánum sínum eða voru ekki með miklar tekjur, það væri sem sagt slæmt að þeir skuli fá minni leiðréttingar en hinir sem skulda mikið. Töluvert var velt vöngum yfir þessu og ég skil vel að hv. þingmaður hafi áhyggjur af því að þeir efnameiri fái of drjúgan hluta af leiðréttingunni.

Það kemur samt mjög vel fram í greinargerðinni með frumvarpinu að 60% af þessari upphæð, 80 milljörðum, lenda hjá heimilum sem eru efnalítil, eru samanlagt með minna en 670 þús. kr. á mánuði. Hv. þingmaður nefndi líka í ræðu sinni að kannski væri betra að lækka skuldir ríkissjóðs, sem eru náttúrlega miklar og ærnar fyrir og vissulega tilefni til þess að þær hækki ekki, og ríkissjóður greiðir mikla vexti. En hefur hún ekki áhyggjur af því að þeir sem hagnast mest á því ef skuldir ríkissjóðs lækka eru þeir sem eru efnameiri og greiða mestu skattana? Það mundi alfarið nýtast þeim efnamestu í samfélaginu en ekki þeim efnalitlu fjölskyldum sem greiða tiltölulega litla skatta, en fá með þessari almennu aðgerð töluvert mikla leiðréttingu.