143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:22]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar og þakka þetta fjármálaráð sem hann veitti í upphafi ræðu sinnar. Það er vissulega svo að sú vísa er aldrei of oft kveðin að við eigum að spara. (Gripið fram í.) Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um, áhyggjur hans — ef ég skildi hann rétt — að ef skattar væru lækkaðir nytu þeir sem væru tekjuhæstir (FSigurj: … mundi það ekki nýtast best þeim sem greiða mesta skatta?) Ég held að það fari algjörlega eftir þeirri leið sem ákveðin er í þeim málum, þannig að það er nú bara algjörlega opið. (Gripið fram í.) Ég held, hv. þingmaður, að ef þú vilt fá samtal í þessum efnum þá þurfum við að gera það hérna frammi á gangi, það eru víst einhverjar reglur um hvernig svona virkar hér. Eins og ég segi, þetta fer allt eftir þeirri leið sem útbúin væri og ég hef engar áhyggjur af því að ekki væri hægt að gera það á sanngjarnan hátt.

Svo vil ég aðeins minnast í lokin á það stef sem sérstaklega hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa verið að ræða um, að þetta sé svo flott fyrir þá efnaminnstu. Það eru um 300 þúsund kr. á ári samkvæmt töflunni á bls. 15 sem hvert heimili fær. (Forseti hringir.) Ég spyr: Hversu hratt er það að brenna upp í verðbólgu?