143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel það afar skynsamlegt að greiða niður skuldir eigi maður þess nokkurn kost. Við erum hins vegar að tala um vandamál íslenskra heimila og það er réttlætingin fyrir að fara út í þessa dýru framkvæmd, við erum að tala um greiðsluvanda íslenskra heimila. (Gripið fram í: Skuldavanda.) Flest íslensk heimili sem eiga í vanda eiga í greiðsluvanda, það eru ekki öll sem eiga í skuldavanda. — Virðulegur forseti, leyfir þú samtal í salnum?

Hv. þingmaður ruglaði mig aðeins í ríminu. En tökum sem dæmi venjulegt heimili. Foreldrarnir eru 30 ára, þau keyptu sér húsnæði 2007 eða 2008 og eiga tvö lítil börn. Þau fóru greiðslujöfnunarleiðina. Þau eru í neikvæðri stöðu, sem er eðlilegt, bæði vegna þess að þau eru ung og eru að stofna heimili og vegna þess að verðbólgan fór upp úr öllu valdi við hrunið.

Það sem skiptir þau máli í dag er að mánaðarleg greiðslubyrði sé lægri. Þess vegna völdu þau að fara greiðslujöfnunarleiðina á sínum tíma. Þau bjuggust við því að þegar hin margumtalaða og margrómaða skuldaleiðrétting framsóknarmanna kæmi til framkvæmda mundi hún einmitt birtast í mánaðarlegri greiðslubyrði núna en færi ekki inn á lánið og kæmi þá til viðbótar við greiðslujöfnunina, færi ekki inn á hinn endann á láninu.

Ég held að þau heimili sem virkilega eiga í vanda og réttlætanlegt er að mæta verði fyrir miklum vonbrigðum. Hinum, sem standa vel undir greiðslubyrðinni, finnst örugglega fínt að byrja á hinum endanum.