143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, ekki satt? Gott ef hann er ekki formaður nefndarinnar. Ég vona að hann fari vel yfir málið og ég vona líka að undirliggjandi í þeirri vinnu verði t.d. skýrsla Seðlabankans sem gefin var út árið 2012. Þar eru mjög góðar greiningar á einmitt greiðsluvanda fólks og hverjum væri þar best að mæta.

Erum við kannski, virðulegur forseti, að ræða hér um skuldavanda og er það þess vegna sem við erum að beina hæstu fjárhæðunum að þeim sem eru með hæstu tekjurnar og hæstu skuldirnar? Tekjuhæsta fólkið er með hæstu skuldirnar. (Gripið fram í.) Er mesti vandinn þar? Allar greiningar sýna að það er ekki skuldavandi heldur greiðsluvandi sem fólkið býr við sem þarf að bregðast við strax.