143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir fína ræðu. Ég vil segja það og ítreka að um margt erum við sammála og ég tek það fram í ljósi umræðunnar að aðgerðin um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána mun létta greiðslubyrði margra svo um munar. Það hefur ítrekað komið fram að 60% af leiðréttingunni fara til heimila með árstekjur undir 8 millj. kr., sem þýðir að þar sem eru tvær fyrirvinnur hefur hvor um 333 þús. kr. í mánaðarlaun.

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir eina af þeim sértæku leiðum sem farnar voru á síðasta kjörtímabili, sem er greiðslujöfnunarúrræði. Hún nefndi dæmi um 20 millj. kr. lán sem tekið var 1. janúar, til 40 ára með 5,1% vöxtum þar sem greiðslubyrðin lækkaði um 13 þús. kr. á mánuði og munar sannarlega um það. Mig langar að spyrja hv. þingmann. Gert er ráð fyrir því í einni grein frumvarpsins að þessar úrlausnir komi til frádráttar, en er ekki rétt að þetta úrræði heldur eftir sem áður og greiðslubyrðin verður sannarlega lægri, eins og hv. þingmaður útskýrði svo vel með dæmi sínu?