143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:53]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða ræðu, yfirgripsmikla og efnismikla, sem upplýsti mig um heilmargt enda reyndur þingmaður á ferð.

Nú hefur komið fram í umræðunni að gögnum vegna greiningar á skuldum heimilanna, sem ráðist var í beint eftir hrunið, hefur verið eytt. Greiningin sem er í frumvarpinu byggir á skattframtölum upp að árinu 2012 og er gerð í tilefni þessa frumvarps og hv. þingmaður nefndi greiningu sem Seðlabankinn réðist í líka. Ég velti fyrir mér framtíðartilhögun á greiningu á skuldum heimilanna og samsetningu þeirra, hvernig við getum hagað því til framtíðar upp á það að geta upplýst umræðu til framtíðar um bæði afleiðingar og framtíðarfyrirkomulag af viðbrögðum við skuldum eða skuldsetningu heimila. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti teiknað upp mynd af því fyrir okkur hvernig það gæti litið út.

Það er ljóst að samkvæmt þessu eru 1.014 heimili sem geta fengið 3,5–4 milljónir. Ég spyr: Hvernig gæti sú fjölskylda litið út, þessir einstaklingar eða fjölskyldur sem eru hluti af þeirri tölu, 1.014, sem gætu fengið allt að 4 milljónir, ef við gætum ímyndað okkur hvernig sú fjölskylda gæti litið út, hvað værum við að tala um? Hér biðla ég til reynslu hv. þingmanns sem fyrrverandi fjármálaráðherra, hvort hann gæti teiknað af þessu mynd.

Að lokum velti ég bara fyrir mér í þessari umræðu allri, hvað er skuldavandi? Hver er möguleg birtingarmynd skuldavanda heimila í tilefni þeirrar umræðu sem kom hér fram um greiðsluvanda og skuldavanda? Hver er birtingarmynd skuldavanda? Eru skuldir manns ekki orðnar vandamál þegar maður hættir að geta borgað af þeim, er það ekki málið? Og er það þá ekki bara greiðsluvandi?

Þetta tengist því forsenduleysi sem er að finna í frumvarpinu og ég sendi þetta bara inn í umræðuna.