143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Gauju Magnúsdóttur fyrir ágæta ræðu.

Þingmaðurinn er reynslumikill sveitarstjórnarmaður og það er býsna mikilsvert að við umræðuna skuli þessi sjónarmið koma fram vegna þess að það eru ansi miklir hagsmunir í húfi hjá sveitarfélögunum. Mig langar að spyrja þingmanninn sérstaklega um það hvernig hún telji að sveitarfélögin muni mæta því tekjufalli sem verður óhjákvæmilega ef að líkum lætur við afgreiðslu þessa frumvarps. Það er væntanlega eitthvað sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf með einhverju móti að svara, hvort til að mynda eigi að bæta sveitarfélögunum þetta upp sérstaklega.