143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:21]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Okkur hv. þingmann sem var í andsvari við mig greinir á um hvað er sanngirni. Það er alla vega mín tilfinning eftir að hafa fengið tækifæri til að sitja á Alþingi síðustu tvo daga og hlusta á þá umræðu sem hér hefur átt sér stað.

Ég á félaga og vini með frábærar tekjur, ofboðslega háar skuldir en geta vel af þeim greitt. Og ég veit ekki og sé ekki hver réttlætingin í rauninni í því er þegar ég á líka félaga sem eru á leigumarkaði, mjög óstöðugum, og þurfa að flytja búferlum á tveggja ára fresti með barnaskarann með sér, þar er engin leiðrétting, enga aðra aðstoð að fá en húsaleigubætur og sértækar húsaleigubætur, sem nota bene eru að 60% á ábyrgð sveitarfélaganna.