143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:26]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Það verður að segjast eins og er að ekki er eins mikil flugeldasýning yfir þessu máli og var í kringum kosningaloforðin hjá Framsóknarflokknum í fyrra. Það er kannski hægt að segja að þetta sé hálfgerð brotlending á þeirri miklu flugeldasýningu sem kom Framsóknarflokknum til valda í landinu með því að lofa fólki því að húsnæðisskuldir þeirra skyldu lækkaðar í almennum aðgerðum. Talað var um 20% niðurfærslu skulda á húsnæðislánum heimilanna og að hinir svokölluðu hrægammar ættu að greiða það og ekkert ætti að taka úr vasa skattgreiðenda til þeirra aðgerða heldur væru það fyrst og fremst vondir útlendingar sem ættu að borga þessar aðgerðir.

Nú hefur komið í ljós að það er ríkissjóður sem ber ábyrgð á þessum aðgerðum. Ætlunin er að ná inn með bankaskatti á þrotabú bankanna fjármunum, 20 milljörðum á ári næstu fjögur árin. Ekkert er í hendi enn hvort það skilar sér. Auðvitað vonar maður að hægt verði að fá þessa fjármuni í ríkissjóð, ekki veitir af. Menn hafa hótað málsókn og það er ekkert vitað hvað verður með innheimtu þessa bankaskatts þó að ég hafi greitt því atkvæði að slíkur skattur yrði innheimtur, líka af þrotabúum föllnu bankanna, eins og bankaskattur var innheimtur hér á síðasta kjörtímabili. Það er síðan alltaf spurning hvernig við ráðstöfum fjármunum ríkisins með réttlátum hætti og hvernig við beitum ríkisvaldinu til að mæta þeim sem fóru verst út úr hruninu.

Hverjum gagnast sú aðgerð sem nú liggur fyrir? Það liggur fyrir að sumir fengu leiðréttingu sinna mála varðandi sín húsnæðislán á síðasta kjörtímabili, og þær leiðréttingar eiga að dragast frá þessum aðgerðum og talað er um að þær leiðréttingar hafi numið að minnsta kosti 70 milljörðum. Það sem mér finnst undarlegt, og minnst hefur verið á í ræðum þingmanna hér á undan, er að greiðslur sem eiga að fara inn á lækkun höfuðstóls hjá einstaklingum munu fyrst fara inn á svokallaðan greiðslujöfnunarreikning hjá þeim einstaklingum sem fóru í greiðslujöfnun. Mér þykir það með ólíkindum að menn ætli að seilast svo djúpt í vasa þess fólks sem fór í leiðréttingu á síðasta kjörtímabili og fékk þá lausn mála að geta ráðið við mánaðarlega greiðslu með því að ýta þunga lánsins aftur fyrir og með því fororði að lánið mundi lengjast í allt að þrjú ár, og ef ekki væri búið að greiða það upp að þrem árum liðnum, í lok viðkomandi láns, yrði sú upphæð afskrifuð. En nú á að fara með fé sem ætlað er til leiðréttingar þessara húsnæðislána í þessum aðgerðum fyrst inn á greiðslujöfnunarreikning áður en einhver fjárhæð nýtist viðkomandi einstaklingi.

Maður spyr sig líka: Út af hverju er ekki tekið tillit til eignastöðu fólks eða tekna og hvort fólk þurfi yfir höfuð einhvern stuðning? Eins og margir fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á heyrir maður í fjölda fólks sem segir: Út af hverju í ósköpunum er verið að aðstoða mig með því að greiða niður höfuðstól láns hjá mér, láns sem ég tók fyrir fjöldamörgum árum; ég hef enga þörf fyrir að fá greiðslur inn á höfuðstól, ég ræð algjörlega við að greiða af þessu láni. Fólk sem hefur samviskubit yfir því að vera að þiggja eitthvað slíkt og vill helst ekki gera það sækir þá líklega ekki um. En það er með ólíkindum að verið sé að reyna að koma fjármunum til fólks sem ekki hefur orðið fyrir forsendubresti. Mér finnst það með ólíkindum að verið sé að fara illa með almannafé með þessum hætti. Það er í raun verið að greiða niður einkaskuldir fólks, burt séð frá því hvort það ráði við það sjálft að standa undir skuldum sínum.

Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar kom inn á það hér áðan að verið væri að taka á skuldavanda en ekki greiðsluvanda. Stór hluti heimila í landinu hefur skuldsett sig með einhverjum hætti til kaupa á íbúðarhúsnæði og reiknar með því að rísa undir þeim skuldum næstu árin og áratugina með tekjum sínum. Það er ekkert að því að skulda, það vita allir. Fyrirtæki skulda, ríkissjóður skuldar, heimilin skulda. Það er þetta samspil á milli, að eðlilegt jafnvægi sé þarna á milli, að tekjur fólks rísi undir útgjöldum og þar á meðal húsnæðisskuldum. Meðan það gengur upp þá er það bara hið eðlilegasta mál. Ég á ekki von á því að fólk stefni að því að hægt sé að greiða upp allar skuldir viðkomandi sisvona og menn standi svo skuldlausir. Auðvitað er vitað að fólk þarf að skuldsetja sig ákveðinn tíma í sínu lífi á meðan það er að greiða af sínu húsnæði, það segir sig sjálft.

Hvaða raunverulega greining hefur farið fram á því hvaða hópar stóðu eftir eftir að þær aðgerðir sem voru á síðasta kjörtímabili voru komnar fram? Hefur virkilega engin greining verið gerð á því? Út af hverju í ósköpunum renna menn svona blint í sjóinn með að afmarka bara þessi tvö ár og smyrja þessu einhvern veginn sisvona á þennan hóp? Maður spyr sig líka: Hvernig nýtist þetta fjármagn? Það var verið að tala um að að meðaltali gætu þetta verið 1,2 milljónir, sú upphæð hefur verið nefnd, meðaltalslækkun á höfuðstóli hjá þeim sem fara í þessar skuldalækkanir, leiðréttingar, sem gerir 270 þús. kr. á ári í fjögur ár. Það þarf nú ekki að hreyfa mikið við verðbólgustiginu til þess að það hverfi.

Maður verður líka að horfa á heildarmyndina. Þegar ég heyri tal ríkisstjórnarflokkanna, ráðherra og annarra, um að fara að hækka virðisaukaskatt á matvæli í landinu, fara að afnema þrepaskipt skattkerfi í landinu sem hefur fyrst og fremst gagnast þeim sem hafa lægri launin; og allt sem á undan er gengið, afnám auðlegðarskatts og annað. Ég er hrædd um að þessar aðgerðir komi ekki til með að gagnast því fólki sem virkilega þarf á því að halda, ég tala nú ekki um ef það er í pípunum að fara að rústa þeim breytingum á skattkerfinu sem gerðar voru á síðasta kjörtímabili og koma hinum tekjulágu til góða, að fara hækka virðisaukaskatt á matvæli, þá held ég nú að það komi hressilega við buddu almennings, og að þessi útdeiling á almannafé upp á milli 70 og 80 milljarða verði hjómið eitt.

Mér finnst ekki forsvaranlegt að deila þessum fjármunum til þeirra sem ekki þurfa á því að halda, það er nú bara þannig. Ég mun aldrei geta staðið að því að tekjum ríkissjóðs sé svo óskynsamlega varið. Við stöndum frammi fyrir því að okkur vantar fé til fjöldans alls af hlutum, ríkissjóð vantar fé til að styrkja velferðarkerfið í landinu, til að bæta kjör ellilífeyrisþega og öryrkja, til að bæta kjör tekjulágra barnafjölskyldna, til að styðja við fjöldann allan af fólki sem minna má sín, og það er alltaf verið að skera við nögl. Leggja þarf meiri fjármuni í Lánasjóð íslenskra námsmanna, í að efla hann, og í rannsóknarsjóði og í ýmislegt sem er til uppbyggingar til framtíðar. Ég tala nú ekki um eitt stykki Landspítala sem brýn þörf er á. Þarna er verið að tala um að verja þessum fjármunum með svo ómarkvissum hætti sem mest má vera, af svo algeru ábyrgðarleysi að það nær ekki nokkurri átt.

Talað hefur verið um að þetta frumvarp sé eyrnamerkt Framsóknarflokknum og fyrra frumvarpið, þar sem er rætt um að séreignarsparnaður verði nýttur til að greiða inn á húsnæðislán skattfrjálst, hefur verið eyrnamerkt Sjálfstæðisflokknum. Ég geri mikinn greinarmun á þeim tveimur frumvörpum. Í fyrra frumvarpinu voru nokkuð skynsamlegir hlutir sem sneru að því að ungt fólk væri hvatt til að leggja fyrir og spara fyrir sinni fyrstu íbúð; margt gott þar og hægt væri að vinna með þá hugmynd. En þetta frumvarp er í einu orði sagt arfavitlaust. Það er sorglegt að Framsóknarflokkurinn hafi gengið fram á þann hátt sem hann gerði fyrir kosningar, að lofa þjóðinni því að hægt yrði að bæta henni hrunið og afnema verðtryggingu og leggja síðan fram frumvarp sem er hvorki fugl né fiskur og nýtist alls ekki því fólki sem virkilega þarf á því að halda.

Við sem studdum síðustu ríkisstjórn vissum að þarna var ákveðinn hópur sem vissulega þurfti á frekari aðstoð að halda, það fólk sem var með íslensku verðtryggðu lánin og keypti sér íbúðarhúsnæði á árunum 2004–2008 og fyrir lágu ýmsar greiningar á þeim hópi. En beina þurfti stuðningi til þessa hóps fyrst og fremst og þá hefðum við ekki verið að tala um 80 milljarða. Við hefðum verið að tala um miklu lægri heildarupphæðir en hærri upphæðir á það fólk sem eftir stóð, fólk sem var í virkilegum vanda. Ég ætla bara rétt að vona að það renni af mönnum vitleysan og menn komist að einhverri (Forseti hringir.) skynsamlegri lausn í efnahags- og viðskiptanefnd þegar hún fjallar um þetta mál.