143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:42]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við höfum oft deilt skoðunum í þeim málaflokki er varðar skuldaúrvinnslu heimilanna og ég veit að hv. þingmaður hefur oft tekið dæmi úr sínum heimabyggðum á Vestfjörðum.

Ég hef hneigst til þess að áætla, án þess að hægt sé að glöggva sig vel á því af neinum gögnum sem lögð hafa verið fram, að þessi aðgerð feli í sér mjög mikla eignatilfærslu, peningatilfærslu, frá hinum dreifðu byggðum til höfuðborgarsvæðisins. Stærri hluti niðurfærslnanna mun koma í hag þeim sem eru með há lán og þeir eru í miklu ríkara mæli hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vildi spyrja þingmanninn hvort hún deili því mati með mér en ég ítreka að það er til mikils vansa að ríkisstjórn sem leggur upp þetta mál sem sitt lykilmál skuli ekki hafa fyrir því að gera alvörugreiningar á umfangi þess og áhrifum á einstaka þjóðfélagshópa þegar menn ákveða að ráðast í fordæmalausar millifærslur af þessum toga. Jafnvel þó að ég hafi fyrst lagt fram fyrirspurn til forsætisráðherra um hvernig einstakir hópar mundu fara út úr þessu og líka sent inn skýrslubeiðni hefur hvorugu verið svarað nema með útúrsnúningum. Það er algjörlega einsdæmi að menn leggi upp með svona mikla peningatilfærslu án þess að útfæra það nákvæmlega hvernig hún fer.

Ég óttast að niðurstaðan verði þessi sem ég segi, að það verði þannig að fólk í hinum dreifðu byggðum beri kostnaðinn af þessum aðgerðum en þær nýtist fyrst og fremst þeim sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu.