143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef jafnræðis væri gætt væri vissulega erfitt að bæta þann forsendubrest sem nú er talinn vera hér ef horft er til þeirra íbúa landsbyggðarinnar sem búið hafa við þennan forsendubrest í tugi ára. Enginn hefur bætt tjón þeirra eða talið sig þurfa að gera það, hvorki ríkissjóður né aðrir.

Það er vissulega mjög áhugavert í þessu sambandi að ríkisstjórnin ætli ekki einu sinni að reyna að greina þá sem verst eru settir og lágu óbættir hjá garði, eins og einhvers staðar var sagt. Hún reynir ekki að greina það heldur á að finna út einhverja leiðréttingarvísitölu með reglugerð þegar allar umsóknir eru komnar í hús. Leiðréttingarvísitalan verður svo notuð til að sjá hvernig deila á út þessum 80 milljörðum.

Ég er ansi hrædd um að það verði á kostnað hinna tekjulægri og ég er ansi hrædd um að þá komi í ljós að það verði þeir sem ekki þurfa á þessum stuðningi að halda sem munu koma upp úr þeim potti sem verður dregið úr í haust. Þá er illa farið fyrir miklum og hástemmdum loforðum framsóknarmanna. Ef þeir hefðu farið fram fyrir síðustu kosningar með loforðið „Allt fyrir þá efnameiri og peninga til hinna ríku sem ekki fengu stuðning hjá síðustu ríkisstjórn“ er ég ansi hrædd um að fáir væru hér á þingi í úr þeim flokki.