143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er of mikið fyrir suma og of lítið fyrir aðra, það er bara þannig. Þetta er allt of lítið fyrir þá sem þurfa virkilega á aðstoð að halda og þetta er allt of mikið fyrir þá sem ekkert þurfa á ríkisaðstoð að halda, það er nú bara þannig. Verið er að tala um fullt af heimilum og fjöskyldum sem ekki þurfa ríkisstuðning. Af hverju í ósköpunum á að deila út því fé?

Eins og ég sagði áðan þarf að sjálfsögðu að greina þann hóp sem stóð eftir og var áfram í vanda, hópinn sem keypti húsnæði, sína fyrstu íbúð t.d. á árunum 2004–2008. Það þyrfti að afmarka þann hóp og greina hann og nýta þá fjármagnið til þess að leiðrétta vanda þess fólks en ekki að fletja þetta svona út. (VigH: Hvað gerðuð þið á síðasta kjörtímabili?) Já, við gerðum nú svo mikið á síðasta kjörtímabili (VigH: Já, …) að núverandi ríkisstjórn sér ástæðu til þess að draga allar þær aðgerðir frá því sem hún ætlar að gera núna. (VigH: Þó það nú væri.) Hún rís ekki einu sinni undir þeirri fugeldasýningu sem hún boðaði. Þetta eru allt bara kínverjar sem springa hér og þar og kemur ekkert út úr því nema eitthvert drasl sem ekkert gagn er að. (PJP: Samt er þetta of mikið?) Þetta er of mikið fyrir hina ríku og ég bara ætla rétt að vona að Framsóknarflokkurinn viti að það er fátækt fólk í landinu og fólk með meðaltekjur sem berst við að ná endum saman sem þyrfti að fá meiri félagslega aðstoð og stuðning vegna hrunsins. En það er fullt af efnamiklu fólki sem þarf bara ekkert á þessari aðstoð að halda. Menn ættu að vita það ef þeir mundu nú setja sig í þær stellingar að vera félagshyggjuflokkur en vera ekki á hlaupunum á eftir Sjálfstæðisflokknum og forðast fyrri hugsjónir sínar sem aldrei fyrr.