143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:56]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hefði mátt útskýra betur hvað hann meinar með því að verja fjármagnseigendur. Ég tel ekki að síðasta ríkisstjórn hafi varið fjármagnseigendur. (PJP: … að verja innstæður.) Ja, vildi hv. þingmaður það sem sagt ekki? Vildi hann að allt bankakerfið og allar innstæður í landinu yrðu látnar þurrkast upp? Ég er hrædd um að hann mundi nú ekki standa undir því að segja það opinberlega að hann hefði viljað það. (Gripið fram í.)

Ég er að halda hér ræðu, hv. þingmaður, og svara því t.d. af hverju þetta telst ekki vera almenn aðgerð. Hvað með þá sem voru með lánsveðin? Hvað með þá sem voru með óverðtryggð lán með vöxtum sem fylgdu í raun og veru verðbólgu? Hvað með þá sem fóru til útlanda vegna þess að þeir gátu ekki verið hér vegna atvinnuleysis og áttu hér húsnæði? Og hvað með námsmenn sem eru með sín lán? Ekki er það bætt. Fleira mætti telja.

Hv. þingmaður er sjómaður. Ef hann kæmi að sjóslysi og þyrfti að bjarga fólki, mundi hann kasta björgunarhring til þeirra sem eru komnir upp í bátinn? Mundi hann ekki kasta björgunarhring til þeirra sem þurfa á því að halda? Þá samlíkingu vona ég að hv. þingmaður skilji, við erum að tala um að kasta björgunarhring til þeirra sem þurfa á því að halda. Hinir sem bjarga sér sjálfir þurfa ekki á björgunarhring að halda.

Nú á fólk sem er með dýrar og miklar eignir og háar tekjur að fá ríkisaðstoð, það fólk getur fengið alveg upp í topp, 4 milljónir, en það fólk sem fékk stuðning á síðasta kjörtímabili var auðvitað fyrst og fremst það fólk sem þurfti virkilega á því að halda, það er sett neðar, allar leiðréttingar eru dregnar frá. Þá hefur sá hópur ekki verið greindur sem (Forseti hringir.) þyrfti virkilega að greina og mæta rausnarlega.