143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er gleðilegt að taka þátt í umræðum um þetta frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Virðulegi forseti. Ég ætla að segja nafnið á frumvarpinu aftur: Frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þetta er það sem framsóknarmenn lögðu fram í kosningabaráttunni. Frumvarpið er lagt fram til þess að leiðrétta þann forsendubrest sem varð á verðtryggðum húsnæðislánum í aðdraganda og í kjölfar hrunsins.

Hér er undarlegt að sitja og hlusta á umræður þegar þingmenn hver um annan þveran, þó sérstaklega frá stjórnarandstöðunni að sjálfsögðu, eru að rugla saman málum fram og til baka. Rætt er um bætur til öryrkja, bætur til eldri borgara, talað er um leiguhúsnæði og verið er að tala um námslán. Hvurs lags eiginlega málflutningur er þetta, virðulegur forseti, þegar kemur skýrt fram í frumvarpinu út á hvað það gengur? Við framsóknarmenn vorum aldrei að tala um það í kosningabaráttunni að á einhvern hátt ætti að gera sértækar aðgerðir til þeirra hópa sem ég fór yfir. Jú, við töluðum um að færa til baka á einhvern hátt þá kjaraskerðingu sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir á síðasta kjörtímabili þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, gekk það skref, virðulegi forseti, að fara inn í grunnbæturnar. Og eins og einhver sagði, með leyfi forseta: „Hver hefði trúað því upp á heilaga Jóhönnu …“

Svona er hægt að snúa málinu fram og til baka og gera það tortryggilegt þegar það liggur alveg ljóst fyrir.

Ef við förum yfir söguna þá var það Hæstiréttur sem dæmdi gengistryggð íbúðalán ógild á sínum tíma, (Gripið fram í.) megnið af þeim. Þá stóð eftir hópur sem hafði verðtryggð fasteignaveðlán. (Gripið fram í.) Þau erum við núna að færa til baka og leiðrétta forsendubrestinn. Þetta er alveg í takt við það sem Framsóknarflokkurinn talaði um í kosningabaráttunni 2013 og nokkurs konar uppbót á því sem flokkurinn talaði um í kosningabaráttunni 2009 sem ekki var hlustað á þrátt fyrir það að Framsóknarflokkurinn varði þáverandi ríkisstjórn, ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, falli gegn því loforði að skuldir heimilanna yrðu lækkaðar um 20%. Þá var það hægt. Þá var ríkið búið að taka bankana í fang sér, allir bankarnir ríkisbankar, og þarna átti að færa niður skuldirnar um leið og bankarnir yrðu færðir í annað eignarhald. Þessu var hafnað. Að sjálfsögðu var þetta svikið eins og margt annað sem frá þeirri ríkisstjórn kom.

Það er nefnilega svolítið skrýtið, virðulegi forseti, að standa hér á vordögum 2014 og heyra þá umræðu frá þeim aðilum sem sátu í síðustu ríkisstjórn. Samfylkingin hefur setið sex ár í ríkisstjórn, Vinstri grænir rúmlega fjögur ár, en núverandi ríkisstjórn er búin að sitja í tæpt ár. Málflutningurinn er slíkur að það er eins og þessir flokkar hafi aldrei nokkurn tímann komið að stjórn ríkisins. Þetta er alveg dæmalaust. Hér er núverandi ríkisstjórn borin þeim sökum að raunverulega sé þetta allt henni að kenna, allt okkur að kenna sem stjórnum nú landinu. Það er náttúrlega ekki boðlegt að þurfa að sitja undir því, virðulegur forseti, en svona er orðræðan í dag. Svo er verið að fárast yfir því að við séum ekki að gera nóg.

Það kom skýrt fram í ræðu og riti fyrrverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra á ákveðnu tímabili á síðasta kjörtímabili að ekki yrði gengið lengra í að hjálpa heimilum, að ekki yrði gengið lengra í skuldaniðurfellingu til heimila. Svo hrópa fulltrúar þessara sömu flokka hér á þingi í allan vetur eftir aðgerðum fyrir heimilin og það sem er verið að færa fram núna sé sko bara alls ekki nóg. Hér er mikill hráskinnaleikur stundaður, virðulegur forseti, og alveg hreint með ólíkindum hvernig þeir hv. þingmenn tala sem margir sátu á þingi í tíð síðustu ríkisstjórnar. Við vitum að þeir urðu fyrir kosningatapi og lítil nýliðun varð hjá þeim flokkum, þetta eru allt sömu þingmennirnir sem báru ábyrgð á aðgerðaleysinu á síðasta kjörtímabili.

Það virðist vera gott að breiða yfir minningarnar og gagnrýna núverandi stjórnvöld. Hæstv. forsætisráðherra orðaði það þannig á dögunum að það sé einhvern veginn ætlunarverk þeirra að sá efasemdarfræjum, að sá hér óánægju, að ala á sundrungu í stað þess að skapa von, gleði og framtíðarsýn fyrir þá sem hafa þó staðið þennan storm af sér síðan 2008, staðið jafnvel í skilum með fasteignir sínar undir skertum lífsgæðum vegna þess að sá hópur hefur á einhvern hátt verið að standa sína plikt. En þá skal þeim hópi líka refsað. Virðulegi forseti. Ég skil bara ekki þennan málflutning.

Það sem hefur komið fram í ræðum í dag að einhverjir séu að fá of mikið og að sumir hafi ekki þörf á þessu. Ég spyr: Hvað á að leggja mikið á fólk og hver á að meta það að einhver sé svo ríkur að þessar aðgerðir þurfi ekki að koma til, þegar við erum að tala um það að taka lánaflokk og lækka í heilu lagi nákvæmlega eins og Hæstiréttur gerði í dómum sínum með gengistryggðu lánin? Var Hæstiréttur að spyrja að því hver væri fátækur, hver væri með meðaltekjur og hver væri ríkur? Hæstiréttur lagði bara línu í sandinn, dæmdi lánin ólögleg og þeir nutu sem höfðu þau lán. Þetta er mjög einfalt, þetta er algjörlega sambærileg leið sem nú er verið að fara með frumvarpinu eins og afleiðingarnar urðu af hæstaréttardómnum. Það er bara svoleiðis.

Framsóknarflokkurinn er félagshyggjuflokkur og hefur ætíð staðið með þeim sem minna mega sín í samfélaginu. [Hlátur í þingsal.] Skrýtið að ég heyri hlátur hér í salnum, það er eitthvað sem snertir viðkvæmar taugar hjá ákveðnum þingmönnum. Það verður að hafa það.

Öryggisnetið verður að vera gott. Á sumarþingi fór ríkisstjórnin fram með frumvarp sem færði öldruðum og öryrkjum, eins og ég fór yfir áðan, 5 milljarða til baka af því sem fyrri ríkisstjórn var búin að skerða. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði um að það væri fyrsta skrefið í átt að því að færa til baka það sem fyrri ríkisstjórn ásældist úr vösum aldraðra og öryrkja á þeim tíma. Ríkisstjórnin hefur framtíðarsýn og er nú búin að sitja í tæpt ár. Það skyldi þó ekki vera að þetta upphlaup gagnvart þessum tveimur skuldaleiðréttingarfrumvörpum stafi af einhverjum ótta við það að stigin verði enn stærri skref og farið verði enn frekar í að hlúa að fjölskyldum landsins? Boðuð hefur verið lækkun á ýmsum vöruflokkum sem hefur þau áhrif að það fer út í verðlagið, eins og gerðist þegar þeir voru hækkaðir í tíð síðustu ríkisstjórnar. Fyrstu aðgerðirnar sem hlutust af því þegar fyrri ríkisstjórn fór í það að hækka áfengi, bensín og tóbak settu milljarða á einni nóttu á húsnæðislán landsmanna. Næsta hækkun sem farið var í hjá síðustu ríkisstjórn, þ.e. að hækka áfengi, tóbak og bensín, setti 13 milljarða á einni nóttu á lán, íbúðalán, verðtryggð íbúðalán, landsmanna. Já, virðulegi forseti. (Gripið fram í: … verðtryggingu … ) Mikill skaði hefur verið af þeirri ríkisstjórn. (Gripið fram í: Af hverju … ?) Svo þegar núverandi ríkisstjórn kemur fram með þessi (Gripið fram í.) skuldaniðurfellingarfrumvörp þá er það bara alls ekki nógu gott. (Gripið fram í: Nei.) Þessi málflutningur er alveg hreint með ólíkindum.

Ég spyr: Vilja þeir stjórnmálaflokkar sem standa í stjórnarandstöðu nú ekki þjóð sinni vel? Vilja þeir þjóð sinni ekki vel? (Gripið fram í: … svikabrigslin.) Það er hreint með ólíkindum, virðulegi forseti, að ég skuli ekki fá að halda hér ræðu um þessi mál án þess að fá mikil frammíköll. En það skyldi þó ekki vera að eitthvað sé að samvisku viðkomandi þingmanna sem [Hlátur í þingsal.] hrópa hér fram í?

Ekki eru tillögurnar frá þeim, virðulegi forseti, komnar hér fram. Ég minnist þess úr fjárlagagerðinni þegar við komum fram með tillögur varðandi t.d. bankaskattinn, bankaskattinn sem Samfylkingin og Vinstri grænir treystu sér ekki í á síðasta kjörtímabili, og fóru ekki í, töluðu hann niður og sögðu að þetta væri allt saman ómögulegt hjá ríkisstjórninni, það var nú heldur betur trompað á milli 2. og 3. umr. því að þá var Samfylkingin búin að taka tillögur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og gera þær að sínum, en bara hækka allar upphæðir og viðurkenndi þar með að bankaskatturinn væri í lagi og væri nothæfur til að brúkast til þessara hluta. En það virðist vera einhver munur á því að vera í stjórn og stjórnarandstöðu.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frumvarpi mjög. Það verður gaman að sjá þetta koma til framkvæmda og gaman að vera hluti af því að sjá það gerast að sú leið er farin að lækka skuldir heimilanna eins og Framsóknarflokkurinn hefur tekið á og talað fyrir í mörg ár.

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja það að lokum að gaman verður að vinna þessi tvö frumvörp á milli 1. og 2. og 2. og 3. umr., kryfja þau og nefndarstarfið á örugglega eftir að verða mjög gott, trúi ég. Það verður gaman að ýta hér á græna takkann fyrir vorið þegar þetta verður að lögum, virðulegi forseti.