143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari síðustu spurningu úr fyrra andsvari voru það aðgerðir fyrri ríkisstjórnar. Ég hef oft talað um það og það hefur komið fram í þinginu að hér er ekkert kapphlaup í gangi varðandi upphæðina á þeim aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn fór í og núverandi ríkisstjórn þó að það virðist vera svolítið mikið þannig í málflutningi núverandi stjórnarandstöðu. Það er bara svo, ég sagði það í ræðu minni, að fyrrverandi ríkisstjórn sem sat síðasta kjörtímabil sagði að ekki yrði gengið lengra í skuldaniðurfellingu. Þess vegna finnst mér svo skrýtið að stjórnarandstaðan skuli ekki taka því fegins hendi að búið er að finna svigrúm til að gera enn betur við þá aðila sem lentu í forsendubresti.

Varðandi þá framtíðarsýn sem þingmaðurinn talaði um, mjög góð spurning, ég fór aðeins yfir það í ræðu minni líka — þetta er ofur einfalt. Hér er verið að leiðrétta forsendubrest sem varð á verðtryggðum fasteignaveðlánum. Það verðbólguskot sem varð hér í kringum hrunið, það reiknast allt út frá því. Þetta reiknast ekki út frá neinum öðrum (Forseti hringir.) forsendum eins og kemur fram í frumvarpinu, þess vegna er svo (Forseti hringir.) sorglegt að blanda og þvæla því í umræðuna (Forseti hringir.) sem ekki stendur í frumvarpinu, virðulegi forseti.