143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:22]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki betur heyrt í ræðu hv. þingmanns áðan en að hún gæfi í skyn að það þyrfti að leiðrétta lögleg lán sem verðtryggðu lánin eru væntanlega talin vera vegna þess að Hæstiréttur leiðrétti lán sem voru ólögleg. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi. Ég velti fyrir mér hver sé lógíkin í því, ef það er tilfellið að Alþingi og löggjafinn eða ríkið eigi í hvert skipti sem koma upp einhver ólög sem Hæstiréttur leiðréttir að hlaupa til og leiðrétta eitthvað annað. Þetta eru ekki sambærilegir hlutir, það er alls ekki um það að ræða.

Og talandi um að leiðrétta þennan hlut vegna þess að einhverjir aðrir fengu aðra leiðréttingu, þá hlýtur þingmaðurinn að horfa (Forseti hringir.) einnig til allra hinna; leigjenda, (Forseti hringir.) námsmanna, eldra fólks og svo (Forseti hringir.) framvegis sem fá ekki neina leiðréttingu út úr þessum aðgerðum.