143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:02]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í ræðu minni nú ræða nokkra þætti frumvarps til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sem koma mér nokkuð spánskt fyrir sjónir, a.m.k. nokkur atriði þar í.

Fyrst vil ég hins vegar taka fyrir umræðu sem borið hefur nokkuð á hér í dag og í gær um hver lofaði hverju, hvar, hvenær og hvernig. Það leikur enginn vafi á því að í aðdraganda síðustu kosninga voru byggðar upp miklar væntingar hjá kjósendum um að nú væru sóknarfæri til að raungera leið Framsóknarflokks um allt að 20% niðurfellingu húsnæðisskulda sem hæstv. forsætisráðherra og flokksmenn hans höfðu talað fyrir frá 2009. Þetta átti að vera mögulegt vegna þess svigrúms sem skapaðist við uppgjör þrotabús bankanna. Þá er auðvitað gaman að geta þess í framhjáhlaupi að Framsókn sat reyndar hjá við atkvæðagreiðslu um það frumvarp sem skapaði forsendur þessa svigrúms sem um er rætt, en það var frumvarp um að læsa inni krónueignir bankanna og var samþykkt 2011.

Burt séð frá því og að öllu gamni slepptu varð þessi umræða til þess að væntingar sköpuðust og engin viðleitni var í þá átt að slá á þær væntingar nema síður væri. Á grunni þessara hugmynda fóru ýmsir að reikna um hvaða stærðir væri mögulega að ræða þegar svo djúpt er tekið í árinni. Tölur á bilinu 240–300 milljarðar fóru að heyrast í umræðunni og þegar þær voru bornar undir núverandi forsætisráðherra var ekkert gert til að slá á þær eða dempa þær stærðir sem höfðu komist á kreik — nema síður væri. Sjálfur skrifar hæstv. forsætisráðherra grein á heimasíðu sína í lok apríl 2013, rétt fyrir kosningar, þar sem hann gerir að umtalsefni sem fyrr svigrúmið sem skapast muni við uppgjör bankanna, segir að það skuli nota að hluta „til að rétta hlut íslenskra heimila“ eins og segir orðrétt í greininni. Í næstu efnisgrein vitnar hæstv. forsætisráðherra svo til talsmanns snjohengjan.is sem talar um að þetta svigrúm geti numið 800 milljörðum. Efni greinar forsætisráðherra korteri fyrir kosningar 2013 var um svigrúm sem skapast við uppgjör bankanna sem nota skuli að hluta til heimila — og það svigrúm er 800 milljarðar.

Það er rétt sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur ítrekað bent á, að engum fjárhæðum hafi beinlínis verið lofað. Þar sem ég er það lánsamur að sitja beint fyrir framan hann get ég stillt klukkuna í hvert sinn sem hv. þingmaður dæsir eða kallar fram í þegar einhver nefnir loforð í þessu samhengi. En ég verð bara að viðurkenna að ég nenni hreinlega ekki svona barnalegum orðhengilshætti. Það er rétt að hvergi má finna bein loforð hæstv. forsætisráðherra um einhverja ákveðna fjárhæð sem ganga skuli til skuldsettra heimila. Nú er hún hins vegar komin fram í frumvarpinu og er 72 milljarðar. Það vill svo til að orð fá ekki merkingu sína af orðabókarskilgreiningu einni. Orð fá merkingu sína af samhengi. Orðhengilsháttur þrætubókarlistamanna sem öðlast hefur tilvistarrétt í dómsölum, því miður, kemur hversdagslífi okkar yfirleitt minnst við. Þegar kemur að venjulegu fólki sem á í daglegum samskiptum er ekki hægt að hengja sig í hvort akkúrat þessu eða hinu nákvæmlega var lofað svona eða hinsegin og allt annað sé þvæla og tómt mál að tala um. Það er barnaskapur og einfeldningsháttur.

Það var öllum ljóst að Framsókn fór fram með orðfæri um skuldaleiðréttingu sem hæstv. forsætisráðherra lýsti síðar sem heimsmeti og upprisu millistéttar. Hæstv. forsætisráðherra og hv. þingmenn Framsóknar trúðu því að hægt væri að ná offé út úr einhverjum óskilgreindum hrægömmum. Sú einlæga trú þeirra birtist í öllu þeirra orðfæri, látbragði og kosningabaráttu vorið 2013 og fleytti þeim í stól forsætisráðherra og lykilstöðu við stjórn þessa lands. Um þetta verður ekki deilt. Svo verður einfalt að sjá hvaða væntingar kjósendur flokksins höfðu þegar allir hafa kíkt í pakkann sinn í haust. Fylgið hefur þegar dalað um 10 prósentustig og við sjáum hvað setur í haust.

Við skulum bara hafa í huga þessa umræðu um svigrúmið sem skapast við uppgjör bankanna sem á að nota fyrir hina og þessa, í alls kyns svona fyrir alla, þegar við hlustum á að enn einu sinni er verið að nota þessa sömu orðræðu í dag, að fram undan séu fleiri lausnir, fleiri möguleikar, fleiri tekjupottar úr þessu svigrúmi og óskilgreindum samningum við óskilgreinda hrægamma, vogunarsjóði o.s.frv. Við skulum hafa þetta allt í huga, það er enn sem sagt verið að lofa okkur á þessum grunni.

Gamla loforðið um skuldaleiðréttinguna er núna orðið að þessu frumvarpi sem við ræðum nú, 72 milljörðum sem koma út frá skatttekjum, svokölluðum bankaskatti sem lagður verður á fjármálastofnanir.

Með þetta loforðadót allt saman frá er best að snúa sér að frumvarpinu sjálfu og þá hvernig þessir rúmu 70 milljarðar eiga að dreifast út til fólks í þessu landi. Það er fyrst að nefna að hér er aðgerð af sömu stærðargráðu og ráðist var í af síðustu ríkisstjórn, og rúmlega það, nema þá var fjármunum markvisst beint til þeirra sem áttu og eiga í vanda sem gerði það að verkum að aðgerðir fyrri ríkisstjórnar voru flóknar og margir áttu erfitt með að skilja þær. Koma þurfti upp sérstöku embætti til að aðstoða þá sem áttu rétt á að sækja um. Vandinn er nefnilega margþættur og ólík meðul sem þarf fyrir ólíka hópa og ólíkt fólk. Nú er þetta ekki tilfellið. Nú skal þetta vera eins auðvelt og að panta pítsu, enda er þetta eitthvað fyrir alla, sama við hvaða aðstæður fólk býr, hvernig fjölskyldan er samansett, hvernig og hvenær verðtryggðu fasteignalánin komu til. Það skiptir ekki máli.

Í raun er því tilefni til þeirrar vönduðu greiningar sem fylgir frumvarpinu en þar má sjá hversu mikið nærri 70 þús. heimili í landinu fá. Og það er rétt að fara yfir það.

Fyrst er að nefna að 5 þús. heimili með verðtryggð fasteignalán fá ekki leiðréttingu og það sem kemur til frádráttar leiðréttingarfjárhæðinni. Lista yfir þau atriði sem koma til frádráttar er að finna í 8. gr. frumvarpsins. Þar er um að ræða niðurfellingu veðkrafna vegna aðgerða um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna frá 2009, það er númer eitt. Í öðru lagi er um að ræða niðurfellingu fasteignaveðkrafna sem mælt er fyrir um í samningi um sértæka skuldaaðlögun frá 2009 og verklagsreglum frá 2010. Þar er í þriðja lagi talað um lækkun skulda samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 2011, það er svokölluð 110%-leið. Í fjórða lagi er niðurfelling fasteignaveðkrafna í kjölfar greiðsluaðlögunar einstaklinga frá 2010, í fimmta lagi niðurfelling fasteignaveðkrafna vegna einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota, í sjötta lagi sérstök vaxtaniðurgreiðsla frá 2010 og svokallaðar sérstakar vaxtabætur koma einnig til frádráttar og í síðasta lagi ákvarðaðar lánsveðsvaxtabætur frá 2013.

Allt þetta kemur til frádráttar þeim leiðréttingum sem stendur til að bjóða upp á. Með öðrum orðum, ef einhver hefur fengið einhverja aðstoð vegna vanda dregst það frá því sem nú er í boði og það eru allt í allt fjárhæðir sem þegar hafa verið greiddar út og nema heildarumfangi leiðréttingar nú og rúmlega það.

Hvað þetta þýðir hins vegar gagnvart því hver fær hvað er ekkert skýrt í frumvarpinu og ekki heldur í skýringum með því. Þessi áhrif eru óreiknuð. Það er með öðrum orðum ekki búið að taka inn í hvernig frádrátturinn mun leika fjölskyldurnar, þ.e. hver fær hvað og hvernig, þannig að í raun eru þær myndir sem eru dregnar upp af áhrifum af þessari aðgerð ríkisstjórnarinnar örugglega rangar, að hve miklu leyti vitum við ekki og hvernig þær koma til með að breytast vitum við ekki heldur. Ég hef illan bifur á þessu og lúmskan grun um að þær verði skekktar í átt til hærri tekjuhópa og eignameiri þegar búið verður að taka tillit til þessa frádráttar sem á eftir að reikna inn.

Hvað varðar þá sem fá niðurfellt samkvæmt frumvarpinu er sýnt samkvæmt myndum og fyrirliggjandi gögnum hvaða fjöldi heimila fær hve mikla niðurfellingu. Þar má sjá að um 60% fá á bilinu 20 þús. kr. til 1,5 millj. kr. niðurfellt, þ.e. rúmlega 50 þús. heimili. Restin fær meira, allt að 4 milljónum. Hvað varðar upphæðina er ljóst að þeir fá mest sem hæstar árstekjur hafa þó að þeir séu í 4. sæti er kemur að hlutdeild í heildarpakkanum.

Því hefur verið fleygt fram hér, m.a. af hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni í umræðu í gærkvöld, að þessi hópur, þ.e. þeir tekjuhæstu, hjón eða einstaklingar með 12 milljónir eða yfir í árstekjur, sé ekki hátekjufólk, hjón með 500 þúsund hvort í mánaðartekjur eru ekki hátekjufólk. Það má svo sem vera en ég mundi hins vegar ekki gera ráð fyrir að þessi hjón væru í tiltakanlegum greiðsluvanda vegna húsnæðislána og miðað við þróun launavísitölu og eignamyndunar á markaði mega aðstæður vera afar sérstakar ef þetta fólk á í vandræðum með eigið fé eða að hlutfall afborgana af ráðstöfunartekjum hafi tekið einhverjum stökkbreytingum. Með öðrum orðum er þetta fólk ekki í greiðsluvanda.

Það er þetta sem mér finnst skrýtið við frumvarpið. Af hverju má ekki miða þessar aðgerðir betur? Það er flóknara og sennilega verður til sælkeraflatbaka sem erfitt er að panta með einhvers konar appi en er það ekki eðlilegra, svo ekki sé minnst á réttlátara?

Það er líka áhugavert að sjá hve stór hlutdeild niðurfærslu fer til fólks sem í dag er eldra en fimmtugt. Það eru um 40% og endurspeglast líka að einhverju marki í hlutdeild niðurfærslu skipt eftir eftirstöðvum skulda. Það má segja að hluti þessarar niðurfærslu fari til að hjálpa fólki yfir síðasta hjallann við að borga upp húsnæðisskuldir sínar, fólki sem á uppkomin eða næstum uppkomin börn, er ráðsett í vinnu og er að verða komið með sitt á þurrt ef vel hefur gengið í lífi þess. Aftur spyr ég: Mátti ekki miða aðgerðirnar eitthvað betur? Hér er hópur sem vissi að hverju hann gekk með töku verðtryggðra fasteignalána, hópur sem man vel eftir óðaverðbólgu níunda áratugarins og því að vinna tvöfalda og þrefalda vinnu til að standa í skilum og borða hafragraut í nærri öll mál eins og sumir úr þessum hópi hafa lýst. Þeir eru búnir, þeir eru komnir með allt á þurrt. Þurfa þeir hjálp? Nei. En þeir fá hana samt.

Verst með gögnin er að það er ómögulegt að rýna í áhrif á landshlutana. Það þarf að skoða og það hefur verið gert og það þarf að leggja það fram samhliða þessu frumvarpi í vinnu nefndarinnar. Ég mundi vilja fá það líka fram. Það er ekki gert í frumvarpinu en það er ákaflega mikilvægt.

Að lokum vil ég fjalla aðeins um það að þeir fá sem ekki þurfa. Þá kemur svarið að fólki sé í sjálfsvald sett að sækja um þetta. Þeir sem telja sig ekki þurfa geta vel sleppt því að sækja um skuldaleiðréttinguna. En þá er aldeilis verk að vinna, þá þarf að fara að tala um þetta frumvarp út frá heildarhagsmunum samfélagsins en ekki heildarhagsmunum einstakra heimila. Það þarf að gera heimilum ljóst að það er hagur okkar sem samfélags að þessi aðferð gagnist helst þeim sem á þurfa að halda og því sé það siðferðisleg skylda þeirra sem ekki telja sig þurfa að taka ekki niðurfærsluna. Vandinn er hins vegar sá að þetta frumvarp er ekkert hugsað þannig. Það miðar að heimilum sem eru orðin óljóst skilgreind grunneining og það er hvers og eins að huga að sínum hag og leiðrétta sinn forsendubrest, sem aftur er heldur ekkert sérlega vel skilgreindur.

Þegar bumbur einstaklingshyggjunnar eru barðar af slíku offorsi er ákaflega ólíklegt að hægt sé að ná fram einhverri samstöðustemningu um að við öll hjálpumst nú að með þetta frumvarp að vopni. Það er aftur barnaskapur og einfeldningsháttur, held ég fram. Staða málsins er einfaldlega þannig að þetta frumvarp mun koma til góða fjölda fólks sem þarf enga sérstaka hjálp. Í sumum tilfellum er jafnvel um að ræða gjöf til fólks sem þegar hefur hagnast á fasteignaviðskiptum sínum þegar allt er talið. Þetta svíður mér, þetta finnst mér rangt og þetta finnst mér vond nýting á fé sem klárlega mætti ráðstafa í svelt skóla- og heilbrigðiskerfi eða til niðurgreiðslu opinberra skulda, sem allt væru sannarlega almennar aðgerðir.

Þetta frumvarp er redding, það á að redda málunum núna, redding án framtíðarsýnar, redding án skilgreinds vanda, redding sem er til skamms tíma. Við skulum athuga vandlega hvað liggur til grundvallar þessum fullyrðingum mínum að um reddingu til skamms tíma sé að ræða þegar við lesum hér samantektina úr frumvarpinu:

„Efnahagsleg áhrif aðgerða til lækkunar skulda heimilanna eru um margt mjög óljós og óvissan mikil, annars vegar vegna þess að aðgerðin er af áður óþekktri stærðargráðu, sem þau líkön sem matið byggist á hafa ekki reynslu af, og hins vegar vegna þess að óvissa er almennt mikil í hagkerfinu, m.a. um umfang ónýttrar framleiðslugetu hagkerfisins.“

Margt bendir til þess að þetta verði þensluaukandi, margt bendir til þess að sú þensla verði byggð á einkaneyslu sem byggir á innflutningi sem mun kalla á vaxtahækkanir og verðbólgu sem mun þá éta upp leiðréttingu höfuðstólsins á jafnvel innan við þremur árum. Því hefur verið fleygt fram í ræðupúltinu.

Þetta frumvarp er í raun ekki lagt fram af ábyrgð, en það er einmitt ábyrgð, agi og ráðdeild í ríkisfjármálum sem þarf nú með ríkissjóð skuldsettan upp á þúsundir milljarða.

Ég legg til að þetta frumvarp verði vandað í nefnd og það verði sniðið betur þannig að við látum ekki peninga í hendur fólks sem ekki þarf heldur að þessu verði miðað betur til þeirra sem þurfa á því að halda í greiðsluvanda. Í rauninni er ekkert til sem heitir skuldavandi, skuldir verða ekki vandamál fyrr en við hættum að geta greitt þær.